Fjöldi nýsmita kórónuveirunnar í Frakklandi tvöfaldaðist síðasta sólarhringinn og segir forsætisráðherra landsins, Jean Castex, ljóst að þjóðin hafi verið á rangri leið í hálfan mánuð. 1397 ný smit hafa verið greind frá því sem var á mánudag og hafa fjórtán látist.
Frakkar hafa haft samkomubann þar sem ekki fleiri en fimmþúsund manns mega koma saman og hefur það nú verið framlengt til loka októbermánaðar. Castex biðlaði einnig til sveitarstjórna landsins að herða á reglum um grímunotkun en hann segir að á hverjum degi finnist um 25 hópsýkingar í landinu, samanborið við fimm fyrir þremur vikum og því ljóst að veiran sé að dreifa sér hratt.
Grímuskylda er í Frakklandi í almmeningssamgöngutækjum og innandyra í búðum og stofnunum en einstaka borgir og bæir hafa einnig tekið upp slíka skyldu utandyra, þar á meðal í París á fjölförnustu götum borgarinnar.
Meira en þrjátíu þúsund manns hafa þegar látið lífið af völdum kórónuveirunnar í Frakklandi og var ástandið mjög alvarlegt í landinu í mars og apríl þegar flóðbylgja sýkingarinnar reið yfir landið. Tilslakanir voru gerðar í maí og júní eftir að útgöngubann hafði verið í gildi.