Stjórnvöld ætla að leggja meira fé til skattrannsókna í kjölfar Samherjamálsins. Norska lögmannsstofan sem aðstoðar Samherja í rannsókn sinni gerir ráð fyrir að skila niðurstöðum sínum innan þriggja mánaða og segist Samherji ætla að endurskoða gildi sín og menningu.
Stjórnvöld tilkynntu í morgun að fjármagn til Skattsins, embætti skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara verði aukið um 200 milljónir króna á þessu ári, vegna aukinnar áherslu á eftirlit og varnir gegn peningaþvætti, skattrannsóknir og skatteftirlit.
Útspil stjórnvalda er í samræmi við fimmta lið aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar til að auka traust á íslensku atvinnulífi eftir Samherjamálið, sem skattrannsóknarstjóri og héraðssaksóknari eru einmitt með til rannsóknar.
Fleiri eru þó með starfsemi Samherja til skoðunar, til að mynda Samherji sjálfur sem réðst í eigin úttekt eftir afhjúpun Samherjaskjalanna og fékk til liðs við sig norsku lögmannsstofuna Wikborg Rein.
Rannsókin sjálfstæð „að stærstum hluta“
Í samskiptum við fréttastofu segir lögmannsstofan að megináhersla rannsóknarinnar hafi verið að teikna upp allar greiðslur sem Samherji innti af hendi í tengslum við starfsemi félagsins í Namibíu. Wikborg Rein segir að rannsókn stofunnar sé að „stærstum hluta“ sjálfstæð, framkvæmd án aðkomu starfsmanna Samherja. Því til staðfestingar nefnir Wikborg Rein að öll viðtöl séu framkvæmd af lögmönnum stofunnar án þess að fulltrúar Samherja komi þar nálægt. Að auki reyni stofan eftir fremsta megni að „sannreyna sjálfstætt“ öll gögn sem þeim berast.
Ekki sé þó tímabært að sögn stofunnar að draga endanlegar ályktanir um niðurstöður rannsóknarinnar á þessari stundu. Wikborg Rein áætlar að rannsókn þess verði svo gott sem lokið fyrir apríl næstkomandi. Þá megi ætla að niðurstöðurnar verði kynntar skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara.
Sjá einnig: Verjast mútum, hagsmunaárekstrum og auka gagnsæi stærri fyrirtækja
Rannsóknin hefur verið gagnrýnd því það þyki ekki trúverðugt aðWikborg Rein skuli rannsaka viðskiptavin sinn, þann sem greiðir fyrir rannsóknina. Björgólfur Jóhannesson starfandi forstjóri Samherjahefur svarað efasemdum á þá leiðað ráðningarsamband lögmannsstofunnar og Samherja sé það sama og þegar endurskoðendur undirriti ársreikninga fyrirtækja. Traustið sé ofar öllu.
Samherji greindi frá því í gærað til standi aðendurmeta gildi félagsins, menningu þess og starfsvenjur. Að því loknu verði innleitt nýtt kerfi til að fyrirbyggja spillingu og peningaþvætti. Kerfið er sambærilegt þeim sem önnur stórfyrirtæki hafi innleitt, jafnt innlend sem útlensk.
Talsmaður Samherja segir í skriflegu svari til fréttastofu að hið nýja kerfið muni ná yfir alla starfsemi félagsins auk dótturfélaga. Ásakanir á hendur Samherja vegna starfseminnar í Namibíu verði leiðarstef vinnunnar sem framundan er.