Um síðustu helgi fóru fram X Games leikarnir í Aspen en um er að ræða eina þekktustu vetraríþróttakeppni í heiminum.
Halldór Helgason gerði garðinn frægan þegar hann gerði sér lítið fyrir og sigraði í risastökki á leikunum árið 2010. Hann keppti árlega til 2014 en slasaðist illa þegar hann lenti illa í risastökki 2013 eftir þrefalt heljarstökk.
Halldór sneri um helgina aftur eftir sex ára hlé og tók þátt í nýrri keppnisgrein sem sem ber heitið Knuckle Huck. Þar stökkva keppendur af öxlinni við hliðina á pallinum sem er notaður í risastökki og keppa í því að láta sig vaða á sem frumlegastan hátt. Klukkan er látin ganga í tuttugu mínútur og nær hver keppandi um það bil fjórum stökkum á þeim tíma.
Halldór tók meðal annars risastórt heljarstökk niður brekkuna en í færslu á Instagram kom fram að hann tileinkaði þátttöku sína snjóbrettamanninum Jaeger Bailey, sem framdi sjálfsvíg fyrr í vetur. Bandaríkjamaðurinn Zeb Powell stóð uppi sem sigurvegari og Halldór lenti í fjórða sæti.
Hér að neðan má sjá upptöku af greininni í heild sinni.