Fótbolti

Wenger vill taka við Hollandi

Sindri Sverrisson skrifar
Það er möguleiki á að Arsene Wenger taki við hollenska landsliðinu.
Það er möguleiki á að Arsene Wenger taki við hollenska landsliðinu. VÍSIR/GETTY

Arsene Wenger hefur ekki þjálfað knattspyrnulið síðan að hann hætti með Arsenal árið 2018 en Frakkinn hefur hug á að taka nú við hollenska landsliðinu.

Ronald Koeman hefur stýrt landsliði Hollands undanfarið en er nú að taka við Barcelona. Wenger hefur lýst yfir áhuga á að fylla hans skarð, samkvæmt íþróttafréttamanninum Jan Joost van Gangelen á Fox Sports í Hollandi.

„Það virðist sem svo að Arsene Wenger hafi látið vita af sér hjá hollenska knattspyrnusambandinu,“ sagði Van Gangelen.

Wenger, sem er sjötugur, stýrði Arsenal í 22 keppnistímabil og vann meðal annars þrjá Englandsmeistaratitla og sjö bikarmeistaratitla með liðinu. Hann hefur síðan starfað fyrir FIFA og sem álitsgjafi í sjónvarpi.

Auk Wenger hafa menn á borð við Frank de Boer, Peter Bosz, Mark van Bommel og Henk ten Cate verið nefndir sem líklegir arftakar Koeman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×