Óvissustigi vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum hefur verið aflýst en það hefur staðið síðan síðdegis í gær.
Á vef Veðurstofunnar segir að ekki sé vitað til þess að snjóflóð hafi fallið á þjóðvegi eða nærri byggð eins og er. Fregnir hafi þó borist af nokkrum flóðum, sem talið er að hafi fallið í gær og fyrradag, meðal annars í Súgandafirði, Önundarfirði og í Syðridal.
„Spáð er tíðindalitlu veðri um helgina, vestanátt með lítilsháttar éljagangi á vestanverðu og norðanverðu landinu í dag og á morgun,“ segir í tilkynningunni.