Fótbolti

Koeman á að hafa sagt við Messi: Engin forréttindi fyrir þig lengur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi hefur sex sinnum fengið Ballon d'Or verðlaunin sem leikmaður Barcelona.
Lionel Messi hefur sex sinnum fengið Ballon d'Or verðlaunin sem leikmaður Barcelona. Getty/Alex Caparros

Fréttir frá Argentínu herma að klaufalegt símtal Ronaldo Koeman við Lionel Messi eigi mikinn þátt í því að argentínski snillingurinn vilji nú yfirgefa spænska félagið.

Lionel Messi tilkynnti Barcelona í gær að hann vilji fara frá félaginu fremur en að klára síðasta árið í samningi sínum.

Ronaldo Koeman hefur ekki stýrt einni æfingu hjá Barcelona en það lítur samt út fyrir að hann sé þegar búinn að gera meiri breytingar á liðinu en flestir þjálfarar liðsins á undan honum.

Það er ekki nóg með að hann tilkynnti stórstjörnu eins og Luis Suarex að þjónustu hans sé ekki lengur óskað þá virðist hollenski þjálfarinn einnig hafa stuðað sjálfan Lionel Messi, besta leikmanninn í sögu Barcelona.

Auðvitað hefur allt verið í tómu rugli hjá Barcelona að undanförnu og það kristallaðist í 8-2 tapinu á móti Bayern München í Meistaradeildinni.

Barcelona fór titlalaust í gegnum tímabilið og þjálfaraskiptin báru engan árangur. Liðið er ekki vitund líkt því liði sem svo lengi taldist til allra bestu knattspyrnuliða heims.

Það var því mikið verk framundan fyrir nýja þjálfarann Ronaldo Koeman. Ronaldo Koeman hringdi í Suarez og sagði honum að hann vildi hann ekki á næstu leiktíð og virðist síðan hafa hringt í Messi og boðað breytingar á hans hlutverki í liðinu.

Argentínska blaðið Diario Olé hefur heimildir fyrir því hvað fór á milli Ronaldo Koeman og Messi í þessu símtali.

Samkvæmt frétt Diario Olé þá var þetta símtal algjört stórslys þegar kemur að framtíðarsambandi Messi og Koeman. Hollenski þjálfarinn ætlaði kannski að kveikja í Messi en stuðaði hann í staðinn.

Koeman sagði við Messi að hann nyti engra forréttinda lengur í liðinu og hann þyrfti núna að gera allt fyrir liðið.

„Það verða engin forréttindi fyrir þig lengur. Ég verð ósveigjanlegur í þessu því þú verður núna að hugsa um liðið,“ á Ronald Koeman að hafa sagt við Lionel Messi.

Lionel Messi hefur vissulega komist upp með það að sinna takmarkaðri varnarskyldu hjá Barcelona og liðið er oftast manni færri í pressunni. Á sama tíma tekst honum oft með því að „fela sig“ fyrir varnarmönnunum og erum leið ferskari þegar kemur að því að ráðast á vörnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×