Fótbolti

Kallaði Prow­se svindlara eftir það sem gerðist á Laugar­dals­velli og hreifst ekki af Birki í göngunum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Roy Keane er harður í horn að taka.
Roy Keane er harður í horn að taka. vísir/samsett/getty

Roy Keane, sparkspekingur og goðsögn hjá Man. United, kallar James Ward Prowse svindlara og hreifst ekki af hegðun Birki Bjarnason í göngunum fyrir leik Íslands og Englands.

Ward-Prowse sparkaði aðeins í vítapunktinn áður en Birkir Bjarnason tók vítaspyrnu í uppbótartíma í leik liðanna á dögunum. Birkir endaði á því að klúðra vítaspyrnunni.

Atvikið var til umræðu hjá þeim Ian Wright og Roy Keane á ITV.

„Það sem mér líkar við James Ward Prowse er að hann hefur þetta í sér og er með smá djöful inn í sér. Þetta er kannski svindl en ef þetta gerist í keppnisleik og getur hjálpað okkur þá kvarta ég ekki,“ sagði Ian Wright.

„Það gerðist og þetta mun mögulega koma okkur áfram í næstu umferð.“

Keane var ekki á sama máli og lá ekki á skoðunum sínum.

„Þetta er svindl. Mér líkar ekki við að sjá það. Þetta má ekki.“

Það var ekki bara þetta atvik sem vakti athygli Keane því einnig var hann ekki hrifinn af því hvernig Birkir Bjarnason bar sig í göngunum fyrir leikinn.

„Við tókum eftir þessu fyrir leikinn og þess vegna var ég ekki viss um hann og þetta víti,“ sagði Keane en mynd af Birki fyrir leikinn má finna neðst í þessari frétt hér.

„Ég skil að leikmenn eru stundum rólegir en hann er of rólegur. Það lítur út fyrir að hann sé að bíða eftir því að komast á klósettið eða bíða eftir leigubíl,“ sagði Keane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×