Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, segir að ljóst sé að lögreglan hefði þurft á frekari styrkingu að halda en þeim fjórum stöðugildum sem bætast við eftir að ákvörðun var tekin um að loka fangelsinu á Akureyri. Hún segist þó ánægð með að tekið hafið verið tillit til röksemda embættisins varðandi lokun fangelsisins.
Í gær tilkynnti dómsmálaráðherra að tekin hafi verið ákvörðun um að loka fangelsinu. Ákvörðunin var upphaflega tekin í sumar en frestað eftir miklar mótbárur, víða úr samfélaginu.
Einn bætist við útkallsvaktina
Á sama tíma og fangelsið lokar verður húsnæðið þar sem það hefur verið til húsa endurnýjað og breytt til að mæta vaxandi húsnæðisþörf lögreglunnar. Minnst tveir sérsveitarmenn verði með fasta búsetu á Akureyri, í stað eins, og að tryggt verði að lögreglan geti nýtt sér úrræði til gæsluvarðhaldsvistar þegar þörf verður á, auk þess sem að fjögur stöðugildi bætast við, líkt og fyrr segir.

Í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra skrifar Páley örlítin pistil um breytingarnar og bendir þar á að boðuð aukning stöðugilda á svæðinu feli í sér að einum manni manni verði bætt við útkallsvakt lögreglu allan sólarhringinn, sem nemi 4 stöðugildum og kosti 62 milljónir króna. Um sé að ræða lágmarksstyringu samkvæmt áliti ríkislögreglustjóra.
„Þegar ákvörðun var tekin í sumar var þessi styrking lögreglunnar ekki á borðinu og ekki hafði verið litið til þeirra áhrifa sem lokunin hefði á lögregluna á Norðurlandi eystra. Fjögur stöðugildi er það sem ríkislögreglustjóri taldi í áliti sínu vera lágmarks styrking. Áður hefur embættið bent á að til þess að sinna föngum þurfa tveir lögreglumenn að fara inn úr útkallsliði en skammtímavistanir hjá embættinu eru um 300 á ári og er sá fjöldi nokkuð stöðugur á milli ára. Lögreglan hefði því þurft frekari styrkingu,“ skrifar Páley.
Sérsveitarmaðurinn þegar tekinn til starfa
Þá sé það mikils virði fyrir rannsóknir embættisins að tryggja eigi fullnægjandi gæsluvarðhaldsúrræði á Akureyri sem fangelsismálastofnun mannar og lýsir embættið yfir ánægju sinni með það, að því er fram kemur í pistli Páleyjar.
Þá bendir hún einnig á að embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra hafi hvað fæsta lögreglumenn á bakvið hverja þúsund íbúa eða 1,7, á sama tíma og lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi 3,9 þrátt fyrir að það sé landfræðilega minna og stutt sé í aðstoð frá öðrum lögregluliðum, líkt og Páley kemst að orði.
Þá bendir hún að ákvörðun um að fjölga í sérsveitarliði á svæðinu um einn starfsmann hafi ekki verið tekin í tengslum við ákvörðun um lokun fangelsins, sá maður hafi þegar hafið störf.
Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, hafa bæði farið fram á það við allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis að nefndin komi saman til þess að ræða ákvörðunina. Bendir Anna á að ótækt sé að ákvörðunin um að loka fangelsinu sé tekin án aðkomu Alþingis.