Viðskipti innlent

Ís­lands­banki hlaut Ís­lensku þekkingar­verð­launin 2020

Atli Ísleifsson skrifar
Edda Hermannsdóttir og Birna Einarsdóttir frá Íslandsbanka, Guðni Th. Jóhannesson forseti, og Herdís Helga Arnaldsdóttir og Telma Eir Aðalsteinsdóttir frá FVH.
Edda Hermannsdóttir og Birna Einarsdóttir frá Íslandsbanka, Guðni Th. Jóhannesson forseti, og Herdís Helga Arnaldsdóttir og Telma Eir Aðalsteinsdóttir frá FVH. FVH

Íslandsbanki hlýtur Íslensku þekkingarverðlaunin 2020 en í ár en fulltrúar bankans tóku við verðlaununum úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar forseta á Bessastöðum í morgun.

Félag viðskipta- og hagfræðinga veitir verðlaunin en þau eru veitt því fyrirtæki sem að mati dómnefndar hefur skarað fram úr á sviði sjálfbærrar þróunar.

Í tilkynningu frá FVH segir að við veitingu verðlaunanna hafi verið litið til þeirrar framtíðarsýnar sem fyrirtækið hafi sett sér varðandi sjálfbæra þróun, hvaða áhrif áhersla á sjálfbæra þróun hafi haft á reksturinn, hvaða aðgerða fyrirtækið hafi gripið til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna ásamt því að horfa til hvernig stjórnendur fyrirtækisins líti á umhverfis- og félagslega þætti hvað varðar hringrásarhagkerfið, jafnrétti og virðiskeðjuna.

Í dómnefnd sátu Hrefna Sigríður Briem frá Festu- miðstöð um samfélagslega ábyrgð, Telma Eir Aðalsteinsdóttir framkvæmdastjóri FVH og Þórarinn Hjálmarsson stjórnarmaður FVH.

Fjöldi tilnefninga barst en önnur fyrirtæki sem fengu viðurkenningu eru Krónan, Orka náttúrunnar og Ölgerðin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×