Viðskipti innlent

Bankarnir með líf margra ferðaþjónustufyrirtækja í sínum höndum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Rannveig Grétarsdóttir framkvæmdastjóri Eldingar og stjórnarmaður í Ferðaklasanum og hjá Íslandsstofu.
Rannveig Grétarsdóttir framkvæmdastjóri Eldingar og stjórnarmaður í Ferðaklasanum og hjá Íslandsstofu. Vísir

Níu af hverjum tíu ferðaþjónustufyrirtækjum leggjast í dvala um næstu eða þarnæstu mánaðarmót og fjöldi fólks er á leið á atvinnuleysisbætur að sögn framkvæmdastjóra Eldingar. Greinin tali nú  fyrir því að fá rekstrarstyrki frá ríkissjóði svo hægt sé að viðhalda ráðningarsambandi við starfsfólk.

Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar fyrir fyrirtæki vegna kórónuveirufaraldursins hafa nýst fyrirtækjum í ferðaþjónustu á ýmsan hátt að sögn Rannveigar Grétarsdóttur framkvæmdastjóra Eldingar og stjórnarmanni í Ferðaklasanum. Hún segir hins vegar að lang flest fyrirtæki hafi orðið fyrir 90-95% tekufalli síðan í mars, ekki sjái fyrir endann á því , það  þurfi því meira til.

„Það er 90% af ferðaþjónustunni að hætta að vinna næstu mánaðarmót eða þar næstu,“ segir Rannveig. 

Hún segir bankana nú meta hvaða fyrirtæki séu lífvænleg og hver ekki.

„Við fengum frystingu á lánum í vor en  núna eru bankarnir að meta hverjir fá áframhaldandi frystingu og matið getur haft í för með sér hverjir lifa þetta ástand af,“ segir Rannveig. 

Þá hafi stuðningslánin komið hratt inn í sumar en svo hafi lítið miðast áfram.

„Mörg ferðaþjónustufyrirtæki fengu tíu fyrstu milljónirnar auðveldlega í stuðningslán í sumar en restin eða lán uppí 30 milljónir eru í vinnslu hjá bönkunum. Ég veit alla vega ekki til þess að það sé byrjað að afgreiða þau,“ segir hún.

Bankarnir veiti ekki viðbótarlán

„Svo þegar kemur að næstu aðgerð eða viðbótarlánunum þá eru bankarnir algjörlega í baklás. Þeir segja að það sé ekki viðeigandi að hafa aðeins 18 mánaðar ríkisábyrgð því fyrirtækin verði klárlega ekki búin að borga þau til baka á þeim tíma. Ég efast að bankarnir komi til með að veita þau lán,“ segir Rannveig. 

Hún óttast að mörg fyrirtæki fari í gjaldþrot eða hætti starfsemi á næstu mánuðum og þá verði erfiðara að byrja aftur þegar ferðamenn  koma á ný til til landsins.

„Við í ferðageiranum  höfum verið að tala um að fá rekstrarstyrki til að geta haldið einhverju starfsfólki í vetur. Ef það verður ekki hægt og fólk týnist endalaust úr greininni mun reynast afar erfitt að koma hjólunum aftur í gang þegar ástandið vegna kórónuveirufaraldursins lagast,“ segir Rannveig. 


Tengdar fréttir

Úrlausnarefnið er ferðaþjónustan

Formaður Miðflokksins segir óljóst hver markmið aðgerða ríkisstjórnarinnar í annarri bylgju kórónuveirufaraldursins sé. Þá hafi lítið samráð verið haft við ferðaþjónustuna. Forsætisráðherra segir úrlausnarefni nú hvernig hægt sé að styðja við greinina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×