Viðar Örn Kjartansson var ekki lengi að stimpla sig inn að nýju í lið Valerenga en hann gerði nýverið þriggja ára samning við norska úrvalsdeildarliðið og var í byrjunarliði í kvöld þegar liðið fékk Brann í heimsókn.
Leikurinn hófst fjörlega því staðan eftir átta mínútna leik var 1-1.
Á 15.mínútu tók Viðar Örn svo leikinn í sínar hendur þegar hann kom Valerenga í 2-1. Nokkrum sekúndum síðar skoraði hann annað mark sitt og á 23.mínútu var staðan orðin 4-1 fyrir Valerenga eftir þrjú mörk Viðars á átta mínútna kafla.
Osame Sahraoui skoraði fimmta mark heimamanna á 35.mínútu en fleiri urðu mörkin ekki í leiknum. Lokatölur 5-1.
Viðari Erni var skipt af velli eftir rúmlega klukkutíma leik og í hans stað kom annar Íslendingur, Matthías Vilhjálmsson.