Leiknir Reykjavík vann ótrúlegan 0-7 sigur gegn Leikni Fáskrúðsfirði á útivelli í Lengjudeildinni. Þá er Magni Grenivík enn á lífi eftir sigur gegn Þrótti Reykjavík.
Leiknir Reykjavík er í harðri baráttu um að komast upp í Pepsi Max deildina á meðan Leiknir Fáskrúðsfjörður er að berjast við að halda sæti sínu í deildinni. Það var ljóst frá fyrstu mínútu hvort liðið færi með sigur af hólmi í dag en Leiknismenn frá Reykjavík unnu 7-0 sigur.
Sólon Breki Leifsson kom þeim á bragðið snemma leiks en hann skoraði þrívegis í dag. Staðan í hálfleik var 5-0 og áttu heimamenn aldrei viðreisnar von. Ásamt Sóloni þá skoraði Sævar Atli Magnússon tvívegis á meðan þeir Máni Austmann Hilmarsson og Birkir Björnsson skoruðu sitthvort markið.
Þykir ekkert eðlilega vænt um þetta mark @LeiknirRvkFC. Einn gegnheill drengur og leiknismaður. BB king jr pic.twitter.com/MObozrmoDB
— Þórður Einarsson (@doddi_111) September 29, 2020
Í Laugardalnum voru tvö lið að mætast sem eru í harðri baráttu við Leikni F. um sæti í Lengjudeildinni að ári. Á síðustu leiktíð töpuðu Magni Grenivík 7-0 á gervigrasvelli Þróttar en annað var upp á teningnum í kvöld.
Davíð Bjarnason kom Magna yfir strax á 1. mínútu leiksins og reyndist það eina mark kvöldsins í Laugardalnum. Gunnlaugur Birgisson nældi sér í rautt spjald í síðari hálfleik og Þróttur lék síðasta hálftímann manni færri.
Leiknum lauk með 1-0 sigri Magna sem þýðir að Þróttur er ekki í fallsæti þökk sé markatölu. Þróttur er með -23 í markatölu, Magni -24 og Leiknir F. -27.
Öll liðin eru með 12 stig og ljóst að fallbarátta Lengjudeildarinnar gæti vart verið opnari.