Íþróttafélag Hafnafjarðar tryggði sér sæti í 3. deild karla í knattspyrnu með ótrúlegum 7-1 sigri á Kormáki/Hvöt í úrslitakeppni 4. deildarinnar í kvöld.
Leikið var inn í Skessunni í Hafnafirði og ljóst að veðurblíðan hentaði Hafnfirðingum mun betur en gestunum frá Blönduósi og Hvammstanga. Fyrri leik liðanna - á Blönduósi - lauk með 1-1 jafntefli en í kvöld var aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi.
Sigurinn var einkar öruggur eins og lokatölur gefa til kynna en ÍH komst í 5-0 áður en gestirnir minnkuðu muninn. Þeir bættu við tveimur mörkum í kjölfarið og unnu 7-1 sigur á endanum.
Ingvar Ásbjörn Ingvarsson skoraði fyrsta mark ÍH í leiknum og Andri Þór Sólbergsson bætti við tveimur í kjölfarið. Pétur Hrafn Friðriksson skoraði tvö næstu mörk leiksins og ÍH komið í 5-0. Hilmar Þór Kárason minnkaði muninn fyrir gestina áður en Bergþór Snær Gunnarsson bætti við sjötta markinu. Pétur Hrafn fullkomnaði svo þrennu sína og tryggði ÍH endanlega sæti í 3. deild undir lok leiks.
Brynjar Ásgeir Guðmundsson, varnarmaður FH, er þjálfari ÍH. Hann hefur ekki spilað með FH í sumar sökum þess að hann sleit hásin í vor.
ÍH fylgir þar með KFS upp í 3. deildina að ári en liðin eiga eftir að útkljá hvort endar sem sigurvegari 4. deildar í knattspyrnu árið 2020.