Sadio Mané, leikmaður Englandsmeistara Liverpool, hefur greinst með kórónuveiruna og mun ekki leika með liðinu í næstu leikjum. Félagið sjálft greindi frá þessu nú í kvöld.
Sadio Mane has tested positive for COVID-19 and is currently self-isolating according to the necessary guidelines.
— Liverpool FC (@LFC) October 2, 2020
Mané er annar leikmaður liðsins sem greinist með kórónuveiruna á skömmum tíma en spænski miðjumaðurinn Thiago Alcântara er einnig í einangrun eftir að hafa greinst nýverið.
Mané hefur byrjað tímabilið vel, líkt og allt lið Englandsmeistaranna sem er með fullt hús stiga. Hafði hann skorað þrjú mörk í þeim þremur leikjum sem liðið hefur leikið í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.
Ljóst er að Mané mun missa af næstu leikjum en Liverpool mætir Aston Villa á útivelli á sunnudaginn.