Enski boltinn

Manchester City bikar­­meistari eftir fram­­lengdan leik | Mynd­bönd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Manchester City er FA-bikarmeistari kvenna 2020 á Englandi.
Manchester City er FA-bikarmeistari kvenna 2020 á Englandi. Catherine Ivill/Getty Images

Manchester City lagði Everton í úrslitum enska FA-bikarsins kvenna megin. Er um að ræða úrslitaleik síðasta tímabils en tímabilinu var aflýst vegna kórónuveirunnar. Úrslitaleiknum var hins vegar frestað og hann loks leikinn í dag.

Var um að ræða 50. úrslitaleik FA-bikarsins í kvennaflokki á Englandi. Fór það svo að Manchester City varði titilinn með 3-1 sigri á Everton eftir framlengdan leik.

Leikurinn var stál í stál framan af en City þó alltaf skrefi framar. Komst City svo yfir með góðum skalla Samantha Mewis eftir hornspyrnu Alex Greenwood á 39. mínútu leiksins. Staðan orðin 1-0 City í vil og þannig var hún í hálfleik.

City hefði átt að komast í 2-0 en Alexandra MacIver, markvörður Everton, átti eina af vörslum ársins og sá til þess að lið sitt var enn í leiknum.

Það var svo aðeins nokkrum mínútum síðar sem Valérie Gauvin jafnaði metin fyrir Everton þegar tæpur klukkutími var liðinn af leiknum. Aftur var um skallamark að ræða eftir hornspyrnu.

Staðan orðin 1-1 og þannig var hún allt þangað til flautað var til loka venjulegs leiktíma. Alls voru sex mínútur í uppbótartíma en hvorugu liði tókst að pota inn sigurmarki og því þurfti að framlengja.

MacIver hélt Everton áfram inn í leiknum en á 111. mínútu leiksins komst City aftur yfir. Varamaðurinn Georgia Stanway skoraði þá eftir að hafa sloppið ein í gegnum vörn Everton. MacIver kom engum vörnum við og staðan orðin 2-1.

Það var svo í uppbótartíma framlengingar sem Janine Beckie skoraði þriðja mark City og tryggði endanlega sigurinn. Lokatölur 3-1 og City því bikarmeistari á Englandi annað tímabilið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×