Erlent

Rann­saka að­för stuðnings­fólks Trumps að Biden-rútu í Texas

Atli Ísleifsson skrifar
Forsetakosningar fara fram í Bandaríkjunum á morgun. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Forsetakosningar fara fram í Bandaríkjunum á morgun. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty

Bandaríska alríkislögreglan FBI rannsakar nú atvik sem varð á hraðbraut í Texas þar sem stuðningsmenn Donalds Trump Bandaríkjaforseta umkringdu rútu framboðs Demókrata. Reuters segir frá því að Trump-fánum hafi verið veifað í bílunum og þeim hafi verið ekið mjög nálægt rútunni þar sem reynt hafi verið að fá rútuna til að hægja á sér.

Atvikið átti sér stað þar sem rúta Demókrata var á leið frá San Antonio til Austin í Texas.

Myndbönd af atvikinu voru birt á samfélagsmiðlum og birti Trump sjálfur færslu af einu slíku með textanum „Ég elska Texas!“

Talsmaður framboðs Demókrata segir að ökumenn bílanna hafi reynt að þröngva rútunni af veginum eða þá fá hana til að keyra hægar. Hvorki Joe Biden né Kamala Harris voru um borð í rútunni þegar atvikið átti sér stað, en heimildarmenn CNN segja öldugadeildarþingmanninn fyrrverandi, Wendy Davis, hins vegar hafa verið í rútunni þó að þetta hafi ekki fengist staðfest.

Starfsfólk framboðs Demókrata sem var í rútunni hringdi á lögreglu sem veitti að lokum rútunni fylgd á áfangastað. Eftir að atvikið kom upp var ákveðið að hætta við tvo skipulagða atburði á vegum Demókrata.

Trump var allt annað en ánægður eftir að fréttir bárust af rannsókn FBI. „Í mínum huga gerðu þessir föðurlandsvinir ekkert rangt af sér.“ Sagði forsetinn að þessi í stað væri rétt að rannsaka „anarkista og æsingamenn Antifa sem kveikja í borgum okkar þar sem Demókratar stjórna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×