Fótbolti

Hamrén: Virtumst ekki hafa kraft eða orku til að vinna leikinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hamrén í leiknum í kvöld.
Hamrén í leiknum í kvöld. Getty/Laszlo Szirtesi

Erik Hamrén, landsliðsþjálfari Íslands, var eðlilega svekktur að loknu 2-1 tapi Íslands gegn Ungverjum í kvöld. Tapið þýðir að draumurinn um að komast á EM er úti. Ræddi Hamrén við Henry Birgi Gunnarsson að leik loknum.

„Þetta var mjög svekkjandi. Við byrjuðum vel og skoruðum snemma. Svo hægðist á þessu og síðari hálfleikurinn var mjög þungur. Við fengum möguleika í seinni hálfleik til að bæta við marki en virtumst ekki hafa kraft eða orku til að vinna leikinn,“ sagði Hamrén um sín fyrstu viðbrögð eftir þetta grátlega tap.

„Þarf að hugsa um það seinna. Þarf að greina það seinna. Við höfðum ekki kraftinn það er ljóst,“ sagði þjálfarinn aðspurður hvort þjálfarateymið hefði getað gert eitthvað annað í síðari hálfleik.

„Við fórum ekki mikið fram því við vorum yfir og vorum að verjast. Vissum að ef við verjumst vel þá munum við fá færi þegar við förum í skyndisóknir. Þeir voru mikið með boltann en þegar við fengum hann þá náðum við að sækja hratt, því miður náðum við ekki að skora samt,“ sagði Hamrén að lokum.

Klippa: Viðtal við Erik Hamren



Fleiri fréttir

Sjá meira


×