„Þessi ár sem við lifum á marka vatnaskil þar sem umhverfisstefna fyrirtækja hættir að vera eitthvað krúttlegt hliðarmál, og er núna orðin líflína fyrirtækisins. Fjarlæg losunarviðmið þýða ekki neitt ef við tökum ekki til aðgerða núna í dag,“ segir Gunnhildur Fríða loftlagsaktivisti aðspurð um það hvaða skilaboð henni finnist brýnast að atvinnulífið hlusti á og bregðist við strax.
Í erindi sínu talar Gunnhildur Fríða beint til atvinnulífs og stjórnmála og lýsir því hvernig hún og hennar kynslóð eru að upplifa stöðuna.
Gunnhildur Fríða situr m.a. í stjórn Arctic Youth Network og hefur tekið þátt í loftlagsverkföllunum í nokkur ár.
„Ég byrjaði að taka þátt í loftslagsverkföllunum þegar ég var 16 ára, þar sem nemendur á öllum aldri koma saman á hverjum föstudegi til þess að mótmæla aðgerðarleysi stjórnvalda í loftslagsmálum. Hreyfingin hefur meira að segja mótmælt í gegnum netið á meðan Covid faraldurinn hefur gengið yfir. Við höfum lagt fram tillögu að neyðaryfirlýsingu stjórnvalda, og talað fyrir aðgerðum byggðar á vísindalegum forsendum, en mér finnst stjórnvöld ekki taka málið nógu alvarlega.
Ég held að stjórnmálamenn finni ekki fyrir sama ótta í hjartanu og við gerum, þegar fréttir eru sagðar af afleiðingum loftslagsbreytinga úti í heimi,“
segir Gunnhildur.
Við spyrjum Gunnhildi um hennar áform og draumastarf í framtíðinni.
„Ég ætlaði að byrja nám við Harvard í haust, en vegna Covid fékk ég ekki landvistaleyfi og frestaði því skólagönguni um eitt ár í stað þess að byrja í Harvard í gegnum Zoom. Mig langar að læra Umhverfisfræði og heimspeki úti í Harvard,“ segir Gunnhildur og bætir við: „Á meðan Covid gengur yfir er ég á útivistabraut í Lýðskólanum á Flateyri, sem er örugglega besti staðurinn til að vera á meðan faraldurinn gengur yfir. Vestfirðir eru mjög fallegir.“
Hér má sjá erindi Gunnhildar.