Fótbolti

Maradona dúxaði á matskýrslu Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Armando Maradona í búningi Barcelona áirð 1983.
Diego Armando Maradona í búningi Barcelona áirð 1983. Getty/Alessandro Sabattini

Hversu góður var táningurinn Diego Maradona? Matskýrsla njósnara Barcelona segir sína sögu.

Eftir fráfall Diego Maradona hafa knattspyrnuspekingar og aðrir reynt að átta sig á hversu frábær og einstakur fótboltamaður Argentínumaðurinn var.

Í tilefni að slíkum pælingum grófu menn upp matskýrslu njósnara Barcelona frá því að Maradona var ungur leikmaður hjá Boca Juniors.

Barcelona var farið að fylgjast náið með Diego Maradona mörgum árum en félagið gerði hann að dýrasta leikmanni heims árið 1982.

Fimm árum fyrr fékk Barcelona matskýrslu á undrabarninu Diego Armando Maradona og hún var ekkert slor.

Cesar Luis Menotti, þjálfari heimsmeistara Argentínu 1978, tók saman matskýrslu á hinum sautján ára gamla Maradona árið 1978.

Menotti mætti á leik hjá Boca Juniors á móti Argentinos Juniors og skilaði af sér skýrslu eftir hann. Blaðamaður Marca á Spáni gróf upp þessa matskýrslu Menotti.

Undir almenna boltatækni þá skrifaði Menotti „ósigrandi“ og undir liðnum sérstök boltatækni þá skrifaði hann „Undraverður, afkastamikill og sérfræðingur í knattraki. Mikill kraftur, ótrúlegt hugrekki, ótrúleg skilvirkni. Mjög gott skot.“

Hann hélt áfram lofræðunni.

„Frábær sendingamaður. Mjög nákvæmur og með fullkomna yfirsýn. Meðal skallamaður. Góðir leiðtogahæfileikar. Hefur kraft í aða halda bolta og magnaður að passa upp á boltann.“

Cesar Luis Menotti var ekki hættur því upptalningin hélt áfram og nú var komið að fótboltagreindinni. „Fullkominn skilningur á fótbolta. Hefur fullkomna tilfinningu fyrir íþróttinni. Góð yfirsýn. Mjög hraður að hugsa og taka réttar ákvarðanir,“ skrifaði Menotti í skýrslu sína og þá var komið að einkunnagjöfinni.

Táningurinn Maradona fékk 9,5 af 10 fyrir hraða, viðbragð, hraða án bolta og fimi. Hann fékk 9,1 fyrir hraða með bolta og átta í einkunn fyrir stökkkraft. Menotti gaf honum líka 10 af 10 fyrir andlegan styrk, einbeitingu og persónuleika.

Barcelona beið þó með að kaupa strákinn í fimm ár en var tilbúið að gera hann að dýrasta knattspyrnumanni heims eftir HM á Spáni 1982. Barca borgaði þá fimm milljónir punda fyrir hann sem þykir ekki mikill peningur í dag.

Diego Maradona skoraði 38 mörk í 58 leikjum á tveimur tímabilum með Barcelona en félagið seldi hann síðan til Napoli sumarið 1984 fyrir annað heimsmet.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×