Enski boltinn

Segir leik­menn ensku úr­vals­deildarinnar ein­fald­lega ekki til­búna í átök vetrarins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Milner fór meiddur af velli í leik Brighton & Hove Albion og Liverpool í gær.
Milner fór meiddur af velli í leik Brighton & Hove Albion og Liverpool í gær. Andrew Powell/Getty Images

Samkvæmt íslenskum sérfræðingi sem starfar í Katar fengu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar ekki nægilegan tíma til að undirbúa sig fyrir átök tímabilsins.

Meiðslalistar liða í ensku úralsdeildarinnar í knattspyrnu lengjast með hverjum deginum. Nær allir þjálfarar – og margir leikmenn – hafa kvartað yfir gríðarlegu álagi um þessar mundir en einkar þétt er spilað vegna kórónufaraldursins.

Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans sem sýndur er á Síminn Sport, ræddi við sjúkraþjálfarann Einar Einarsson í gær. Sjá má spjall þeirra í myndbandinu hér neðst í fréttinni.

Einar er hluti af Íslendinga nýlendunni í Katar en þar starfar hann á Aspetar íþróttasjúkrahúsinu.

„Það gafst aldrei tækifæri til að undirbúa leikmenn undir þessi átök. Það sem skiptir mestu máli er að þjálfa hámarks ákefð. Snýst þannig séð ekki um leikinn sjálfan eða þessar 90 mínútur sem leikmenn spila,“ sagði Einar í viðtalinu við Tómas Þór.

„Þetta snýst um hversu marga spretti þú tekur hverja viku fyrir sig og hversu góður leikmaðurinn er að taka endurtekna spretti. Þjálfun knattspyrnumanna milli leikja snýst um þetta að mörgu leyti. Undirbúningstímabilið snýst um að koma leikmönnum á stig svo þeir geti tekið þessi krefjandi hlaup undir lok leikja sem dæmi,“ bætti Einar við.

„Það varð ekkert úr undirbúningstímabilinu og það er búið að auka leikjaálagið til muna. Tækifærin til að þjálfa þessa hluti eru þess vegna mun minni núna þar sem tíminn á milli leikja snýst um að jafna sig,“ sagði Einar að endingu.

Samkvæmt vefsíðinni Physio Room sem heldur utan um meiðsli leikmanna í ensku úrvalsdeildinni eru alls 107 leikmenn meiddir eða tæpir fyrir komandi leiki síns liðs. Arsenal er þar efst á lista með tíu leikmenn og Manchester United þar á eftir með níu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×