Enski boltinn

Leik­manna­hópur New­cast­le eins og hann leggur sig kominn í sótt­kví

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Allir sem koma að aðalliði Newcastle United eru nú í einangrun.
Allir sem koma að aðalliði Newcastle United eru nú í einangrun. Daniel Leal Olivas/Getty Images

Allir leikmenn enska úrvalsdeildarfélagsins Newcastle United eru nú komnir í sóttkví eftir alltof margar jákvæðar niðurstöður úr síðustu Covid-skimun félagsins. Gæti farið svo að leik liðsins gegn Aston Villa á föstudaginn verði frestað.

The Guardian greindi frá þessu seint í gærkvöldi.

Allir leikmenn og starfslið ensku úrvalsdeildarinnar eru skimaðir fyrir Covid-19 reglulega til að koma í veg fyrir útbreiðslu smita. Í síðustu skimun Newcastle reyndust fjórir leikmenn sem og einn starfsmaður með veiruna. Því var ákveðið að aflýsa æfingum og loka æfingasvæðinu.

Allir sem koma að aðalliði félagsins eru því í einangrun að svo stöddu. Fari svo að Newcastle sæki um að fresta leiknum á föstudaginn væri það fyrsta frestun ensku úrvalsdeildarinnar á leik vegna kórónufaraldursins.

Steve Bruce, þjálfari Newcastle, var án þeirra Isaac Hayden, Emil Krafth, Jamal Lascelles, Andy Carroll og Allan Saint-Maximin í 2-0 sigri liðsins á Crystal Palace um liðna helgi. Hvort fleiri leikmenn bætist við þennan lista á eftir að koma í ljós en það er öruggt að Bruce fengi varla nægan tíma á æfingasvæðinu til að undirbúa lið sitt fyrir komandi leik gegn Villa.

Enska úrvalsdeildin setti þau skilyrði að svo lengi sem lið hefðu 14 leikfæra leikmenn, þar af einn markvörð, þá gætu þau ekki sótt um frestun. Talið er að Bruce muni samt reyna að fresta leiknum þar sem hann telur skort á undirbúningi geta leitt til enn frekari meiðslahættu leikmanna, sem hefur nú þegar verið mikið í umræðunni.

Newcastle United er í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 14 stig að loknum tíu umferðum. Er það einu stigi meira en Arsenal og einu stigi minna en Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×