DMT er sterkt ofskynjunarlyf sem svipar til LSD og ofskynjunarsveppa. Hægt er að vinna efnið úr plöntum eða búa það til, að því er fram kom í umfjöllun Stöðvar 2 um efnið í janúar. Þar var jafnframt greint frá áhyggjum lögreglu af svokölluðum DMT-pennum, svipuðum rafrettum, sem innihalda lyfið og gengið hafa kaupum og sölum á netinu. Lögregla sagði lyfið hættulegt og gæti valdið langvarandi heilsutapi.
Samkvæmt upplýsingum Ríkisútvarpsins gæti lögregla boðað til fundar á næstunni til að skýra málið. Ekki sé vitað til þess að framleiðsla á efni af þessu tagi hafi verið stöðvuð áður hér á landi.
Fimm hafa verið handteknir í tengslum við málið en þrír úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 15. Desember, að því er fram kom í tilkynningu lögreglu um málið í dag. Ráðist var í húsleit á mörgum stöðum á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins og hald lagt á fíkniefni, fjármuni og búnað sem talinn er tengjast starfseminni.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur notið aðstoðar lögreglunnar á Suðurnesjum, ríkislögreglustjóra og héraðssaksóknara við rannsóknina og aðgerðirnar. Þar að auki hafa pólsk lögregluyfirvöld og Europol komið að málinu. Ekki náðist í lögreglu á höfuðborgarsvæðinu við vinnslu fréttarinnar.