Markvörðurinn Caoimhín Kelleher hefur komið sterkur inn í Liverpool liðið á síðustu dögum. Fyrst hélt hann hreinu í sigri á Ajax í Meistaradeildinni og svo hélt hann hreinu í sigri á Wolves í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Kelleher hefur varið nokkrum sinnum vel í báðum leikjum og séð til þess að Liverpool menn sakna ekki Alisson Becker eins mikið.
Þetta voru tveir fyrstu leikir Caoimhín Kelleher í marki Liverpool í þessum tveimur stærstu keppnum og hann stóðst þessu stóru próf afar vel.
Glöggir áhorfendur tóku hins vegar eftir því að Caoimhín Kelleher var ekki réttnefndur aftan á markmannstreyju sinni í leiknum á móti Úlfunum í gær.
Það vantaði nefnilega eitt e í nafnið aftan á markamannstreyjunni. Caoimhín Kelleher var Kellher á markmannstreyjunni.
Starfsmenn Liverpool áttuðu sig þó á þessu og írski markvörðurinn skipti um markmannstreyju í hálfleik.
Miðað við byrjun hans hjá Liverpool þá ætti allir á Anfield að vera núna búnir að læra nafnið Kelleher.
Caoimhín Kelleher gleymir ekki þessum fimm dögum enda mögnuð byrjun hjá þessu írska 21 árs landsliðsmarkverði.
Það er ekki vitað hvað hann gerði við markmannstreyjuna úr fyrri hálfleiknum. Hún fór kannski beint í ruslið en annars gæti hún verið safngripur fyrir einhvern áhugasaman um mistök sem þessi.