Fótbolti

Riðill Ís­lands fyrir undan­keppni HM 2022 er klár: Þýska­land og Rúmenía erfiðustu and­stæðingarnir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ísland og Rúmenía mætast aftur í undankeppni HM 2022.
Ísland og Rúmenía mætast aftur í undankeppni HM 2022. Vísir/Hulda Margrét

Ísland leikur í J-riðli í undankeppni HM 2022 í knattspyrnu sem fram fer í Katar. Ísland er í riðli með Þýskalandi, Rúmeníu, Norður-Makedóníu, Armeníu og Liechtenstein.

Ísland og Rúmenía ættu að þekkjast ágætlega en íslenska liðið lagði það rúmenska á Laugardalsvelli fyrir ekki svo löngu síðan. Töluvert lengra er síðan Ísland mætti hinum liðunum.

Ísland og Norður-Makedónía mættust í undankeppninni fyrir HM 2010 sem fram fór í Suður-Afríku. Þar endaði Ísland í 6. og neðsta sæti með fimm stig á meðan N-Makedónía var sæti ofar með sjö stig. Ísland vann heimaleikinn 1-0 en tapaði ytra 2-0. Var það eini sigurleikur Íslands í þeirri undankeppni.

Þá var Ísland í riðli með Liechtenstein fyrir EM 2008.

Íslenska landsliðið er auðvitað án þjálfara sem stendur eftir að Erik Hamrén sagði starfi sínu lausu eftir tapið í Ungverjalandi. Tapið þýddi að íslenska liðið komst ekki á Evrópumótið sem fram fer næsta sumar.

Undankeppni HM hefst hins vegar nú í mars og því ljóst að nýr þjálfari fær ekki langan tíma til að undirbúa liðið fyrir komandi átök. Fyrsta umferð undankeppninnar fer fram 24. og 25. mars á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×