Innlent

Til­laga um gjaldfrjálsar tíðar­vörur felld á Al­þingi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tíðarvörur verða ekki gjaldfrjálsar á næstunni ef marka má ákvörðun Alþingis í dag.
Tíðarvörur verða ekki gjaldfrjálsar á næstunni ef marka má ákvörðun Alþingis í dag. Getty/Annette Riedl

Breytingartillaga Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns utan flokka, við frumvarp til fjárlaga um að gera tíðarvörur aðgengilegar án endurgjalds fyrir tiltekna hópa var í dag felld á Alþingi með einu atkvæði. Þingmenn Vinstri grænna, fyrrverandi samflokksmenn Andrésar, greiddu atkvæði gegn tillögunni.

Fjárlagafrumvarpið var í dag afgreitt til þriðju umræðu og mun hún hefjast á mánudaginn.

Tillaga Andrésar fólst í því að sjá til þess að öllum nemendum sé tryggt aðgengi að tíðarvörum án endurgjalds í grunn- og framhaldsskólum. Þá átti einnig að gera lágtekjufólki kleift að nálgast tíðarvörur án endurgjalds, til dæmis á heilsugæslustöðvum eða í gegn um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Þingmenn Flokks fólksins, Miðflokksins, Pírata, Samfylkingarinnar og Viðreisnar auk tveggja þingmanna utan flokka greiddu atkvæði með tillögunni. Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði gegn tillögunni. Fór svo að 27 þingmenn greiddu atkvæði gegn tillögunni og 26 með henni. 

Rétt rúmar tvær vikur eru liðnar síðan skoska þingið samþykkti samhljóða frumvarp sem kveður á um að sveitarfélög verði að tryggja „öllum þeim sem á þurfa að halda“ tíðarvörur á borð við túrtappa, dömubindi, eða margnota tíðarvörur, gjaldfrjálst.

Þá er bara eitt og hálft ár síðan Alþingi samþykkti að lækka virðisaukaskatt á tíðarvörur úr efra þrepi niður í það neðra. Með breytingunum lækkaði virðisaukaskattur á vörurnar úr 24 prósentum niður  í ellefu prósent. 


Tengdar fréttir

Bjóða upp á fríar tíðar­vörur í Há­skólanum í Reykja­vík

Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík býður nemendum sínum fríar tíðarvörur. Formaður félagsins segir að með framtakinu sé verið að mótmæla bleikum skatti á vörurnar. Mikil ánægja ríki meðal kvenkynsnemenda og -kennara í skólanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×