Innlent

Óku utan í bíl manns eftir vítaverðan akstur á Hellisheiði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögregla fullyrðir að ökumaðurinn hafi ekið með vítaverðum hætti á Suðurlandsvegi.
Lögregla fullyrðir að ökumaðurinn hafi ekið með vítaverðum hætti á Suðurlandsvegi. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á Suðurlandi greip til þess ráðs að aka utan í bíl karlmanns sem hafði ekið á vítaverðan hátt á Suðurlandsvegi frá höfuðborginni til Selfoss. Enginn slasaðist í aðgerðum lögreglu en ökumaðurinn var handtekinn.

Í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi segir að boð hafi borist um fólksbifreið sem rásaði mikið á Suðurlandsvegi vestan við Litlu kaffistofuna. Var bílnum sagt ekið í austurátt.

Var ákveðið að senda lögreglu frá Selfossi og höfuðborginni. Ökumanninum voru að sögn lögreglu gefin merki um að nema staðar á Hellisheiði en sinnti hann engum stöðvunarmerkjum lögreglu.

Lögreglumenn óku að lokum utan í bifreið mannsins, í hringtorgi vestan við Selfoss, og sneru henni og var ökumaður handtekinn.

„Mildi má telja að engin slys urðu, vegna vítaverðs aksturs ökumanns fólksbifreiðarinnar,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Ökumaður var vistaður í fangageymslu á lögreglustöðinni á Selfossi og verður hann yfirheyrður á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×