Enski boltinn

Ancelotti hefur breytt miklu fyrir Gylfa og félaga á einu ári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fær hér góð ráð frá Carlo Ancelotti í sigurleiknum á móti Arsenal um helgina.
Gylfi Þór Sigurðsson fær hér góð ráð frá Carlo Ancelotti í sigurleiknum á móti Arsenal um helgina. Getty/ Jon Super

Í dag er nákvæmlega eitt ár liðið síðan að Carlo Ancelotti tók við knattspyrnustjóri Everton.

Carlo Ancelotti skrifaði undir fjögurra og hálfs árs samning við Everton 21. desember 2019. Fimm dögum síðan stýrði hann Everton til 1-0 sigurs á Burnley.

Ancelotti tók við starfi Marco Silva sem var rekinn 5. desember 2019 eða sextán dögum fyrr. Duncan Ferguson stýrði Everton liðinu í þremur leikjum áður en Ítalinn tók við.

Það hefur mikið breyst á þessum 366 dögum sem eru liðnir síðan að Carlo Ancelotti settist í stjórastólinn á Goodison Park.

Síðasti leikur Everton undir stjórn Marco Silva var 5-2 tapleikur á móti nágrönnunum í Liverpool en það var þriðja deildartap liðsins í röð. Liðið sat þá í fallsæti deildarinnar eða því átjánda.

Everton tapaði ekki leik undir stjórn Duncan Ferguson, vann 3-1 sigur á Chelsea og gerði jafntefli við bæði Manchester United og Arsenal. Á þessum rúmu tveimur vikum þá hækkaði liðið sig upp í fimmtánda sætið.

Everton fékk 1,5 stig í leik eftir að Ancelotti tók við og endaði í tólfta sæti deildarinnar í lok tímabilsins sem var ekki fyrr en í júlílok vegna kórónuveirunnar.

Everton byrjaði síðan nýtt tímabil frábærlega og er í fjórða sætinu eftir leiki helgarinnar, með 26 stig í 14 leikjum eða 1,86 stig að meðaltali í leik.

Gylfi Þór Sigurðsson lenti út í kuldanum hjá Ancelotti en hefur komið sterkur inn í síðustu þremur deildarleikjum sem hafa allir unnist, á móti Chelsea, Leicester City og Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×