Logi, nýráðinn þjálfari FH – á nýjan leik, var spurður út í ráðningu Arnars Þórs Viðarssonar sem þjálfara íslenska karlalandsliðsins.
Logi Ólafsson þekkir bæði vel til Arnars Þórs sem og starfsins en hann var landsliðsþjálfari 1996 til 1997 og svo frá 2003 til 2005 ásamt Ásgeiri Sigurvinssyni frá 2003 til 2005.
„Mér lýst bara mjög vel á nýjan landsliðsþjálfara. Ekki síst á félaga hans sem verður þarna með honum,“ sagði Logi og á þar við Eið Smára Guðjohnsen sem þjálfaði FH með Logi síðasta sumar en er orðinn aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins.
„Við vorum nú saman síðastliðið sumar og það er gríðarlega mikill „pótens“ í þessum tveimur mönnum. Þeir vinna vel saman, bæta hvorn annan upp og framtíðin er þeirra. Þeir geta náð gríðarlega langt í þessu starfi.“
„Arnar Þór stefndi fyrst að því að verða atvinnumaður í fótbolta og það tókst honum. Á hann glæsilegan feril að baki, 52 A-landsleiki og síðan er greinilegt hvert hugurinn hefur stefnt. Hann hefur drukkið í sig þau fræði hvar sem hann hefur verið og það er að skila sér ásamt því að vera mjög vel menntaður í þessu,“ sagði Logi um nýjan aðalþjálfara íslenska karlalandsliðsins.
„Hann náði góðum árangri með U21 landsliðinu þannig ég vona bara að þeir haldi áfram á sömu braut þessir félagar.“
„Arnar Þór er fyrst og fremst rosalega duglegur maður og það sem hann hefur gert niðri hjá Knattspyrnusambandi sem yfirmaður knattspyrnumála og þjálfari hjá U21 er frábært svo mér finnst þetta eðlilegt framhald,“ sagði Logi að lokum.
Þess má til gamans geta að Davíð Þór Viðarsson, bróðir Arnars Þórs, verður aðstoðarmaður Loga hjá FH.