Enski boltinn

Rúnar Alex lokaði Twitter-reikningi sínum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson vill eflaust gleyma leik Arsenal og Manchester City sem fyrst.
Rúnar Alex Rúnarsson vill eflaust gleyma leik Arsenal og Manchester City sem fyrst. getty/David Price

Rúnar Alex Rúnarsson lokaði Twitter-reikningi sínum eftir 1-4 tap Arsenal fyrir Manchester City í enska deildabikarnum í gær.

Rúnar Alex fékk á sig afar klaufalegt mark þegar hann missti boltann inn eftir aukaspyrnu Riyads Mahrez í upphafi seinni hálfleiks.

Landsliðsmarkvörðurinn fékk mikla gagnrýni frá stuðningsmönnum Arsenal eftir leikinn og endaði á því að loka reikningi sínum á Twitter.

Þrátt fyrir mistökin í leiknum í gær styður Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, við bakið á Rúnari Alex.

„Hann hefur ekki leikið marga leiki fyrir okkur og er enn að aðlagast deildinni. Við gerum öll mistök og við verðum að standa við bakið á honum,“ sagði Arteta aðspurður um mistök Rúnars.

„Við vitum einnig að Bernd [Leno] er búinn að spila margar mínútur og þurfti á hvíld að halda og við vildum gefa öðrum leikmönnum tækifæri. Alex hefur staðið sig vel í þeim leikjum sem hann hefur spilað og svona hlutir gerast í fótbolta.“

Rúnar Alex greip í tómt í fyrsta marki City sem Gabriel Jesus skoraði strax á 3. mínútu. Hann varði hins vegar mjög vel frá sama leikmanni undir lok fyrri hálfleiks.

Arsenal hefur gengið afar illa að undanförnu. Liðið situr í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með aðeins fjórtán stig eftir þrettán leiki. Næsti leikur Arsenal er gegn Chelsea á heimavelli á öðrum degi jóla.


Carabao Cup er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Carabao Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir

Staðsetning Rúnars kom Mahrez á óvart

Riyad Mahrez, leikmaður Manchester City, var undrandi á staðsetningu Rúnars Alex Rúnarssonar, markmanns Arsenal, er Mahrez skoraði annað mark City í gær.

Rob Green fann til með Rúnari Alex

Robert Green, fyrrum landsliðsmarkvörður Englands sem og Norwich City, West Ham United og Leeds United, fann til með Rúnari Alex Rúnarssyni í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×