Innlent

Allir sem koma heim til Íslands þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/vilhelm

Frá og með morgundeginum, fimmtudeginum 19. mars 2020, er Íslendingum og öðrum með búsetu á Íslandi og koma til landsins skylt að fara í tveggja vikna sóttkví án tillits til hvaðan þeir eru að koma. Undanþegnir þessu er flugáhafnir og áhafnir flutningaskipa. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum og sóttvarnalækni en um er að ræða útvíkkun á hááhættusvæðum vegna kórónuveirunnar.

Alls eru nú 250 staðfest kórónuveirusmit á Íslandi, samkvæmt nýjustu tölum á Covid.is, og 2422 eru í sóttkví. Alls hafa 6510 sýni verið tekin og 457 hafa lokið sóttkví.

Sjá einnig: Aldrei fleiri ný smit á einum degi

Áður hafði Íslendingum sem sneru heim frá svokölluðum hááhættusvæðum verið gert að fara í tveggja vikna sóttkví við heimkomu. Þessi svæði, þ.e. lönd með mikla smithættu, eru Íran, Suður-Kórea, Ítalía, Kína, Þýskaland, Spánn og Frakkland. Nú gilda sóttkvíartilmælin um heimkomu frá öllum löndum.

Sóttvarnalæknir ræður Íslendingum jafnframt frá ferðalögum og þá er Íslendingum sem eru á ferðalagi erlendis ráðlagt að íhuga hvort ástæða sé til að flýta heimför. 

Sóttkví vegna kórónuveiru er 14 dagar frá síðasta mögulega smiti eða þar til einkenni koma fram. Hér má nálgast leiðbeiningar Landlæknisembættisins og sóttvarnalæknis um sóttkví í heimahúsi. Ef einstaklingur í sóttkví fer að upplifa einkenni, og Covid-19-sýking er staðfest í kjölfarið, þarf að fara eftir leiðbeiningum um einangrun í heimahúsi.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Aldrei fleiri ný smit á einum degi

Um 17% allra þeirra sem hafa greinst með kórónuveiruna á Íslandi greindust í dag. Fjöldi nýrra smita sem greindist í dag er hátt í tvöfalt hærri en á nokkrum öðrum degi frá því að faraldurinn hófst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×