Sport

„Margir myndu njóta þess ef tímabil yrði flautað af en ekki stuðningsmenn Liverpool“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Munu Virgil Van Dijk og félagar grípa um höfuð sér eftir fund ensku úrvalsdeildarinnar í dag?
vísir/getty

Liverpool goðsögnin Phil Thompson segir að helsta verkefni ensku úrvalsdeildarinnar á neyðarfundi dagsins sé að komast að því hvernig eigi að klára tímabilið.

Fótbolta á Englandi var hætt í síðustu viku vegna kórónuveirunnar og er talið að fyrstu leikirnir verði í fyrsta lagi þann 4. apríl en menn telja það í það fyrsta.

Forsvarsmenn ensku úrvalsdeildarinnar sem og félögin hittast á hálfgerðum neyðarfundi í dag og ræða hvað sé best að gera.

„Það eru margir sem myndu njóta þess ef tímabilið yrði blásið af en ekki stuðningsmenn Liverpool, þar á meðal ég sjálfur. En það eru mikilvægari hlutir í lífinu,“ sagði Thompson í viðtali við Sky Sports.

„Ef tímabilið yrði núllað út. Hverjir myndu falla og hverjir eru að fara spila í Meistaradeildinni á næstu leiktíð? Það eru svo mörg vandamál sem þyrfti að leysa úr og besta leiðin er að koma með einhverja formúlu til þess að klára tímabilið, sama hversu langan tíma það tekur.“

„Ég held að það fyrsta sem verði sagt á fundi dagsins sé að það verði að klára tímabilið. Félögin voru beðin um að koma með tillögur og það eru auðvitað aðrir hlutir sem þarf að ræða um en þetta hlýtur að vera efst á baugi. UEFA hefur frestað EM svo það opnar glugga fyrir deildina,“ sagði Thompson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×