Bardaga Kolbeins Kristinssonar í Detroit, sem átti að fara fram á föstudaginn, hefur verið blásinn af vegna kórónuveirufaraldursins. MMAfréttir greina frá.
Kolbeinn átti að mæta Rodney Moore í þrettánda bardaga sínum sem atvinnumaður. Hann hefur unnið alla tólf bardaga sína þótt hann fái einn sigurinn ekki skráðan opinberlega.
Í síðasta bardaga sínum sigraði Kolbeinn Dell Long með rothöggi í annarri lotu.
Kolbeinn æfir í hinni goðsagnakenndu æfingastöð Kronk í Detroit undir handleiðslu Javans „SugarHill“ Steward sem er einnig þjálfari heimsmeistarans Tysons Fury.
Kolbeinn er kominn á samning hjá stórri umboðsskrifstofu, Salita Promotions. Í samtali við Vísi í síðasta mánuði sagðist hann gera ráð fyrir því að fá 5-6 bardaga á þessu ári. Kórónuveirufaraldurinn hefur þó þegar sett strik í reikning Kolbeins eins og annarra hnefaleikakappa.