Erlent

Ísraelskar borgir gætu verið á meðal skotmarka Írans

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Vígið á Soleimani hefur vakið mikla reiði víða í Írak og Íran.Hér halda mótmælendur á mynd af honum.
Vígið á Soleimani hefur vakið mikla reiði víða í Írak og Íran.Hér halda mótmælendur á mynd af honum. Vísir/Getty

Mohsen Razaee, fyrrverandi leiðtogi íranska byltingarvarðarins, segir að ísraelsku borgirnar Tel Aviv og Haifa gætu orðið skotmörk hefndarárása íranskra árása, í hefndarskyni fyrir vígið á Qassem Soleimani, háttsettum írönskum hershöfðingja sem féll í drónaárás Bandaríkjamanna í Írak, aðfaranótt föstudags.

Þetta sagði Rezaee við minningarathöfn til heiðurs Soleimani, sem haldin var í Tehran, höfuðborg Írans, í dag. Hann hefur áður látið í veðri vaka að ísraelsk stjórnvöld hafi lekið upplýsingum um staðsetningu Soleimani til Bandaríkjanna. Ísrael og Bandaríkin eru bandamenn.

Drápið á Soleimani hefur valdið mikilli ólgu bæði í Íran og Írak, en fyrr í dag var greint frá því að írakska þyngið hefði samþykkt ályktun þess efnis að kallað verði eftir því að erlendir hermenn sem dvalið hafa í landinu, yfirgefi landið sem fyrst.

Þá var flugskeytum skotið inn á svokallað „grænt svæði“ í Bagdad, höfuðborg Íraks, í gær. Á svæðinu er að finna ýmsar alþjóðastofnanir og sendiráð, meðal annars sendiráð Bandaríkjanna.

Eins hafa leiðtogar Hezbollah, harðlínusveitar írakska þjóðvarðarliðsins, varað írakskar hersveitir við því að dvelja of nálægt bandarískum herstöðvum í Írak, frá og með eftirmiðdegi dagsins í dag. Það er talið veita vísbendingu um að hefndaraðgerðir séu í vændum.

Þá hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti vara Írani við því að aðhafast nokkuð í hefndarskyni. Í tísti sem forsetinn sendi frá sér í gær sagði hann að Bandaríkin myndu aðhafast „mjög hratt og mjög harkalega“ ef stjórnvöld í Íran komi til með að ráðast á Bandaríkjamenn eða annað sem gæti talist Bandaríkjamönnum mikilvægt.


Tengdar fréttir

Írakska þingið vill erlenda hermenn burt

Íraskir þingmenn samþykktu í dag ályktun þess efnis að kallað verði eftir því að erlendir hermenn sem dvalið hafa í landinu, yfirgefi Írak sem fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×