Innlent

Biðla til fólks að biðja ekki um undan­þágu frá sótt­kví nema nauð­syn krefji

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir biðlar til fólks að biðja ekki um undanþágu frá sóttkví nema nauðsyn krefji. Töluvert hafi borið á undanþágubeiðnum en erfitt sé að verða við þeim ef aðgerðin eigi að hafa tilætluð áhrif. Þetta kom fram í máli sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna nú síðdegis.

Heildarfjöldi staðfestra smita er nú 409 og hafa því 79 bæst í hóp smitaðra síðasta sólarhringinn. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði aukninguna hafa verið svipaða og í fyrradag, og er hún þar með minni en í gær. Hlutfall jákvæðra sýna af þeim sem send voru á veirufræðideild Landspítala voru um 13 prósent. Hlutfallið er áfram lágt hjá Íslenskri erfðagreiningu, eða um eitt prósent.

Þá eru sex inniliggjandi á Landspítalanum nú, þar af einn á gjörgæslu en ekki í öndunarvél. Tveir hafa verið útskrifaðir af spítalanum. Þá hafa sautján losnað úr einangrun.

Þá sagði Þórólfur faraldurinn í vexti, en ekki miklum. Jafnvel hefði verið búist við að vöxturinn yrði meiri en raunin er. Þetta þýði að aðgerðum sem beitt hefur verið hingað til verði haldið áfram, þ.e. að greina smit snemma og beita sóttkví.

Í því samhengi sagði Þórólfur að auðvitað komi illa fyrir fyrirtæki að margir séu í sóttkví. Þá bæri töluvert á því að sótt væri um undanþágur frá sóttkví. Ef gefnar væru undanþágur á sóttkví þá missti aðgerðin hins vegar marks.

Fólk sem hefði annars verið í sóttkví gæti smitað aðra og þannig yrði álagið meira á heilbrigðiskerfið. Heilbrigðisyfirvöld biðluðu þannig til allra að biðja ekki um undanþágu frá sóttkví nema nauðsyn krefji.


Tengdar fréttir

Munu ekki hika við að setja á út­göngu­bann ef talið er að þess þurfi

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir að yfirvöld muni ekki hika við að setja á útgöngubann hér á landi ef talið er að þess þurfi. Sá tímapunktur sé hins vegar ekki kominn og ekki sé búist við því að setja þurfi á útgöngubann næstu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×