Fótbolti

Maldini-feðgarnir smituðust

Sindri Sverrisson skrifar
Paolo Maldini er sannkölluð goðsögn hjá AC Milan.
Paolo Maldini er sannkölluð goðsögn hjá AC Milan. VÍSIR/GETTY

Ítalska knattspyrnufélagið AC Milan greindi frá því í gær að feðgarnir Paolo Maldini og Daniel Maldini hefðu smitast af kórónuveirunni.

Paolo Maldini er yfirmaður knattspyrnumála hjá Milan en Daniel sonur hans er framherji í unglingaliði félagsins. Í yfirlýsingu frá félaginu segir að Paolo hafi verið innan um einstakling sem hafi svo greinst með veiruna, og í kjölfarið fór þessi 51 árs gamla Milan-goðsögn sjálf að finna fyrir einkennum.

„Paolo og Daniel líður báðum vel og þeir hafa báðir þegar verið tvær vikur heima án þess að komast í snertingu við annað fólk. Þeir verða núna áfram í sóttkví þar til að þeir hafa náð sér að fullu, í samræmi við leiðbeiningar frá heilbrigðisyfirvöldum,“ sagði í yfirlýsingu AC Milan.

Daniel, sem er 18 ára, lék í síðasta mánuði sinn fyrsta leik fyrir Milan í ítölsku A-deildinni og fetaði þar með í fótspor föður síns og afa. Feðgarnir eru þeir fyrstu sem tengjast AC Milan sem vitað er til þess að hafi smitast af kórónuveirunni.

Í gær greindist þriðji leikmaðurinn úr liði Juventus með kórónuveiruna þegar Paulo Dybala lýsti því yfir að hann hefði smitast, rétt eins og Blaise Matuidi og Daniel Rugani.


Tengdar fréttir

Dybala og frú með veiruna

Paulo Dybala er þriðji leikmaður Ítalíumeistara Juventus í fótbolta sem greinist með kórónuveiruna en hann segir líðan sína góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×