Innlent

Tvö ný smit á milli daga

Kjartan Kjartansson skrifar
Tekin hafa verið fleiri en 40.000 sýni vegna kórónveirunnar til þessa.
Tekin hafa verið fleiri en 40.000 sýni vegna kórónveirunnar til þessa. Vísir/Vilhelm

Staðfest smit nýs afbrigðis kórónuveiru sem veldur Covid-19-sjúkdómnum eru nú alls 1.773 hér á landi. Staðfestum smitum fjölgaði því um tvö milli daga.

Alls eru nú 28 innlagðir á sjúkrahús og fjórir á gjörgæslu vegna Covid-19. Þá hafa 1.362 náð bata. 1.109 einstaklingar eru í sóttkví og 402 í einangrun. 18.129 hafa lokið sóttkví. Tekin hafa verið 43.143 sýni.

Níu eru sagðir hafa látist af völdum Covid-19 á vefsíðunni. Í yfirlýsingu frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða í dag kom hins vegar fram að kona á níræðisaldri hefði látist á hjúkrunarheimilinu Bergi. Það er þá tíunda dauðsfallið af völdum veirunnar á Íslandi.

Klukkan tvö verður haldinn upplýsingafundur almannavarna og landlæknis þar sem farið verður yfir stöðu mála í sambandi við faraldurinn og farið yfir aðgerðir til að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og Alma D. Möller, landlæknir, munu fara yfir stöðu mála með tilliti til COVID-19 hér á landi. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, og Hjörtur Kristjánsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem starfar í Vestmannaeyjum verða gestir fundarins.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×