Erlent

Átján ákærðir fyrir aðild að dauða samnemanda síns

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hinn látni, Timothy Piazza, var nemandi við ríkisháskólann í Pennsylvaníu.
Hinn látni, Timothy Piazza, var nemandi við ríkisháskólann í Pennsylvaníu. Vísir/AFP
Átján meðlimir svokallaðs „bræðralags“, hóps karlkyns nemenda við Ríkisháskólann í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, hafa verið ákærðir fyrir aðild að dauða samnemanda síns, Timothy Piazza. Átta voru ákærðir fyrir manndráp af gáleysi en aðrir fyrir að eiga við sönnunargögn, líkamsárás og brot á áfengislögum. Þetta kemur fram í frétt AP fréttaveitunnar.

Timothy Piazza, sem var verkfræðinemi á öðru ári við háskólann, er sagður hafa dottið í tvígang niður stiga eftir að hann var neyddur til að taka þátt í drykkjukeppni. Atvikið átti sér stað í byrjun febrúar þegar hann, ásamt öðrum, sóttu um aðild að bræðralaginu. Piazza hlaut alvarlega höfuðáverka í seinni byltunni sem drógu hann að lokum til dauða. Þá mældist gríðarlegt áfengismagn í blóði hans. Piazza var 19 ára þegar hann lést.

Meðlimir Beta Theta Pi bræðralagsins kölluðu ekki á hjálp fyrr en nokkur tími hafði liðið frá því að Piazza fannst og eru þannig sagðir hafa orðið til þess að hann þjáðist klukkutímum saman. Þá benda sönnunargögn einnig til þess að nokkrir sem aðild eiga að málinu hafi reynt að hylma yfir það sem gerðist.

Eric Barron, forseti háskólans, fordæmdi atvikið í yfirlýsingu. Þá hefur öll starfsemi umrædds bræðralaga, Beta Theta Pi, verið lögð niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×