Innlent

Áslaug telur að sameining FÁ við Tækniskólann geti verið jákvæð

Anton Egilsson skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, telur mikilvægt að vera opin fyrir breytingum á skólakerfinu. Ákvörðun um það að sameina  Fjölbrautarskólann við Ármúla við Tækniskólann geti verið jákvæð ef með því sé verið að bæta þjónustu við nemendur.  

Þær Áslaug Arna, Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, voru gestir Höskuldar Kára Schram í þættinum Víglínunni á Stöð tvö í dag og ræddu meðal annars áform um sameiningu Tækniskólans og Fjölbrautaskólans við Ármúla.

Greint var frá því í vikunni að unnið væri að sameiningu Tækniskólans og Fjölbrautaskólans við Ármúla. Ekkert hefur þó verið ákveðið í þessum málum og ekkert hefur verið tilkynnt opinberlega.

Áslaug segir að verið sé að kanna grundvöll fyrir sameiningunni og leggja mat á hvort að þetta komi til með að gagnast skólunum.

„Ég tel að það sé mikilvægt að skoða breytingar og við þurfum að vera opin fyrir breytingum á skólakerfinu okkar útaf mörgum þáttum og þá sérstaklega útaf fækkun nemenda. Ef að þetta bætir skólana, að við getum boðið upp á fjölbreyttara nám og þá sérstaklega starfs- og iðnnám og að við séum að bæta þjónustu við nemendurna með svona sameiningu þá held ég að hún geti verið jákvæð.”

Fyrirhuguð sameining hefur fengið mikil og hörð viðbrögð í vikunni. Kennarar við skólann hafa látið óánægju sína í ljós auk þess sem að Félag framhaldsskólakennara sendi frá sér yfirlýsingu þar sem tekin var skýr afstaða gegn sameiningunni. Þá hafa nemendur við Fjölbrautarskólann við Ármúla hrint af stað undirskriftsöfnun til að mótmæla sameiningunni. Nú þegar hafa hátt í 500 manns skrifað undir en undirskriftarlistann hyggjast þau afhenda Kristjáni Þór Júlíussyni, mennta- og menningarmálaráðherra.

Vantar faglegt mat

Þórhildur Sunna segir ekkert athugavert við það að skoða sameininguna en að það ætti að vera gert í samstarfi við stjórnarandstöðuna og þá sem þetta kemur til með að hafa áhrif á.

„Það sem mér finnst hins vegar vanta upp á er yfir höfuð eitthvað faglegt mat. Ef að faglegt mat liggur ekki fyrir, ef að þetta byggir ekki á faglegum forsendum þá grefur totryggnin um sig um að þetta sé  einkavæðing og að það sé verið að taka stöndugan skóla og sameina hann einkaskóla án þess að það liggi fyrir þær ástæður þess hvers vegna þetta er svarið frekar en eitthvað annað.”  

Hún segist jafnframt mikilvægt að fyrir liggi upplýsingar um hvernig fyrri sameiningar við Tækniskólann hafi gengið  og hvort að það hafi verið nemendum og starfsfólki til hagsbóta. Hún hafi óskað eftir slíkum upplýsingum frá mennta- og menningarmálaráðherra en engin svör fengið.

„Ég hef hvorki fengið svör um það frá ráðherra hvaða viðmið lágu að bak því að  Fjöbrautarskólinn í Ármúla var valinn en ekki einhver annar skóli né þá heldur hvernig hefði gengið með fyrri sameiningar. Ég fékk engar upplýsingar um hvernig það hafi verið staðið að síðustu sameiningu við Tækniskólann og hvaða niðurstöður og árangur hefði náðst af því.”

Án faglegs mats eigi hún erfitt með að trúa að faglegar forsendur liggi að baki.

Mér finnst að ef það er ekki búið að skoða þessa fyrstu sameiningu liggur ekki fyrir hvernig það gekk og það er ekki vitað hvort að það hafi verið nemendum og starfsfólki til hagsbóta. Þá sé ég ekki á hvaða grunni er verið að taka þessa ákvörðun. Maður á erfitt með að trúa að það séu faglegar forsendur að baki þegar það liggur ekkert faglegt mat að baki.”

Áslaug segir að faglegt mat fari nú fram innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins.  

„Niðurstöður þess mats verður byggt á ef að við tökum þessa ákvörðun.” 

Horfa má á Víglínuna í heild sinni hér að ofan.


Tengdar fréttir

Segjast uggandi yfir áformum um að einkavæða Ármúlaskóla

Kennarar í FÁ eru skildir eftir í óvissu, segir trúnaðarmaður þeirra. Ríkið haldi frá þeim upplýsingum um sameiningu skólans við Tækniskólann. Formaður Félags framhaldsskólakennara segir einkavæðingu FÁ í uppsiglingu. Nefndarmaður




Fleiri fréttir

Sjá meira


×