Innlent

Miklar skemmdir unnar á fjórðu braut golfvallarins á Seltjarnarnesi

Atli Ísleifsson skrifar
Kristinn segir að svona mál koma upp af og til, að bílum sé ekið inn á völlinn. Þetta sé þó versta tilfellið í langan tíma.
Kristinn segir að svona mál koma upp af og til, að bílum sé ekið inn á völlinn. Þetta sé þó versta tilfellið í langan tíma. Kristinn Ólafsson
Miklar skemmdir voru unnar á fjórðu braut og flöt golfvallarins á Seltjarnarnesi í nótt þar sem bíl var ekið inn á völlinn og honum ekið í hringi.

Kristinn Ólafsson, formaður Nesklúbbsins, segir tjónið vera mikið fyrir klúbbinn. „Það var ekið inn á völlinn, spólað í tvo, þrjá hringi. Viðkomandi keyrði einnig niður skilti, fór hér um og skemmdi.

Hann segir klúbbinn vera með öryggismyndavélar á svæðinu sem verið sé að skoða með lögreglu. „Svo eru öryggismyndavélar inn og út af Seltjarnarnesi sem menn munu skoða. Bíllinn lenti í einhverju barði og því hugsanlegt að það hafi orðið eitthvað tjón á honum. Þetta verður rannsakað og við hvetjum fólk til að hafa samband ef það hefur orðið vart við einhverjar mannaferðir á svæðinu.“

Kristinn segir ekki liggja fyrir að svo stöddu klukkan hvað skemmdirnar voru unnar. „Við erum að meta tjónið með okkar vallarstarfsmönnum. Í versta falli getur þetta hlaupið á milljónum. Flatirnar eru mjög viðkvæmar, eru blautar og að jafna sig eftir veturinn. Það á eftir að koma í ljós hvað við þurfum að gera. Það er möguleiki að fyrst þurfi að ráðast í bráðabirgðaviðgerðir og svo gera eitthvað meira.“

Kristinn segir að svona mál koma upp af og til, að bílum sé ekið inn á völlinn. Þetta sé þó versta tilfellið í langan tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×