Dásamlegt að geta bara búið til bíó Magnús Guðmundsson skrifar 6. maí 2017 09:00 Mads Mikkelsen í hlutverki sínu í kvikmyndinni Arctic sem var öll tekin hér fyrir skömmu við einkar krefjandi aðstæður. Mynd/Helen Sloan Lífið er gott. Ég er í Kaupmannahöfn svona aðeins að slaka á og njóta þess að vera til,“ segir leikarinn Mads Mikkelsen sem nýverið lauk við tökur á kvikmyndinni Arctic sem er leikstýrt af ungum leikstjóra að nafni Joe Penna, framleidd af bandarísku fyrirtækjunum Armory Films og Union Entertainment í samstarfi við íslenska fyrirtækið Pegasus. Það er líka eftirtektarvert að listrænir stjórnendur og starfsfólk myndarinnar var allt íslenskt utan aðstoðarleikstjórans en tökur fóru allar fram á Íslandi. Mads Mikkelsen hefur á síðustu árum öðlast heimsfrægð fyrir leik sinn í kvikmyndum á borð við Bond-myndina Casino Royale, Rogue One Star Wars, dönsku verðlaunamyndina Jagten og fjölmargar fleiri myndir ásamt bæði dönskum og bandarískum sjónvarpsseríum. Þrátt fyrir frægðina stendur hugur Mads Mikkelsen þó einkum til þess sem hann kallar rokk og ról verkefni og Arctic er fyrir honum eitt af þeim verkefnum, kannski einmitt vegna þess hversu krefjandi og erfitt það reyndist.Engin köllun Mads Mikkelsen er því hvíldinni feginn og hann segir að það sé gott að koma á heimaslóð í Kaupmannahöfn þar sem hann er fæddur og uppalinn. Aðspurður um ástæður þess að hann hafi ákveðið að leggja leiklistina fyrir sig þá segir hann það í raun hafa ráðist af röð tilviljana. „Ég var í fimleikum þegar ég var krakki og var beðinn um að taka þátt í söngleik til þess að taka nokkur heljarstökk í bakgrunninum og var látinn dansa smá í leiðinni. Danshöfundurinn spurði mig hvort að ég væri ekki til í að læra að dansa og ég ákvað að slá til sem leiddi til þess svona í stuttu máli að ég var atvinnudansari í níu ár. Það var á þeim vettvangi sem ég fékk áhuga á leiklistinni.“ Úr dansinum lá leiðin í leiklistarskólann í Árósum sem er annar af stóru leiklistarskólunum í Danmörku og Mads segir að árin þar hafi verið góður tími. „Þetta er fín borg en námsmenn njóta kannski sjaldan alveg borganna þar sem þeir læra vegna þess að þeir eiga aldrei pening,“ segir Mads og hlær við minninguna. „En eins og með námið þá hefur ferillinn alltaf verið bara eitthvað sem gerist. Ég fann aldrei fyrir einhvers konar köllun heldur var þetta meira þannig að eitt leiddi af öðru. Þannig var það t.d. að sumarið fyrir síðasta veturinn í skólanum lék ég í minni fyrstu kvikmynd sem var Pusher eftir Nicolas Winding Refn. Pusher var skotin þarna í sumarfríinu og þegar ég svo útskrifaðist vorið eftir þá var einmitt verið að frumsýna þá mynd. Ég var því einn þeirra heppnu sem þurftu ekki að fara af stað og banka upp á í leit að vinnu. Ég fékk strax vinnu í leikhúsi og var að auki boðið að vera með í nokkrum myndum þannig að þetta var eins þægilegt og það getur orðið.“Mynd/Helen SloanDanska byltingin Mads Mikkelsen er í hugum margra andlit dönsku kvikmyndabyltingarinnar sem hann segir að Danir hafi unnið mjög markvisst að því að byggja upp. „Velgengni okkar Dana í kvikmyndagerð byggist hvorki á tilviljun né heppni. Þær fjárfestingar sem þjóðin lagði í kvikmyndagerð á síðustu áratugum hafa reynst gríðarlega mikilvægar. Við megum auðvitað ekki gleyma að þetta hefur verið til staðar mun lengur en þessi uppsveifla í dönskum kvikmyndum. En málið er að þetta hefur verið gert með markvissum hætti, er enn til staðar af fullum krafti og er haldið stöðugu. Fyrir vikið eru danskar kvikmyndir gríðarlega sterkar á alþjóðlegum mörkuðum og þó að það sé munur á milli ára þá eru þetta einfaldlega mjög öflug viðskipti. Auðvitað hefur aðkoma ríkisins mikið að segja um þennan góða árangur en ég held að þetta hafi líka mikið að gera með kynslóðir. Sú kynslóð sem kom út úr leiklistar- og kvikmyndaskólunum á þessum tíma, um miðjan tíunda áratuginn, deildi ákveðinni ástríðu. Allir sem tilheyrðu þessari kynslóð áttu sameiginlega ást á kvikmyndum sem voru frá því á áttunda og snemma á níunda áratugunum. Við horfðum aftur og aftur á þessar myndir og spurðum okkur svo að því af hverju við hefðum aldrei gert neitt í líkingu við þetta. Við vorum í raun föst í einhverju fari. Það þýðir ekki að það hafi ekki verið gerðar góðar myndir í Danmörku eða að það hafi ekki verið nóg til af góðum leikurum. Alls ekki. En vandinn var að það var ekki tekin áhætta í danskri kvikmyndagerð. Þessi kynslóð sem ég er að tala um breytti þessu. Hún tók áhættu. Við sem elskuðum myndir Martins Scorsese leituðumst við að byggja á því sem okkur fannst áhugavert í hans myndum. Þeir sem elskuðu Cassavetes unnu út frá því. Þetta leiddi til ákveðinnar byltingar. Leiddi til þess að við náðum að komast upp úr hjólförunum og undan þeirri stöðnum sem hafði ríkt lengi og það er það sem ég á við með að þetta sé byggt á kynslóð. Við vorum fólk á sama aldri, með sömu orku og sömu hugmyndirnar um kvikmyndir. En það sem er mest um vert er að við vorum ekki að vinna með 72 ára gömlum leikstjóra sem langaði til þess að segja eitthvað um sína æsku. Eitthvað sem hafði ekkert með okkur að gera.“ Mads leggur áherslu á að það sé mikilvægt fyrir þjóð á borð við Dani að eiga sína eigin öflugu kvikmyndagerð. „Þetta er líka mikilvægt fyrir tungumálið, við vitum alveg að danska er ekki að fara að verða alheimstungumálið á morgun, en það er auðveldara að spegla sig í kvikmyndum á móðurmálinu. Alveg eins og það er auðveldara að tengja við það sem gerist í nærumhverfinu fremur en það sem gerist kannski í New York. Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að halda áfram að framleiða kvikmyndir í Danmörku.“Mads Mikkelsen hefur verið viðstaddur ófáa stórviðburðina en hugurinn er þó heima í Kaupmannahöfn hjá fjölskyldunni.Nordicphotos/gettyFrá Buster Keaton til fábjána Mads segir að hvað hann varði persónulega hafi ótrúlega margar kvikmyndir haft áhrif á hann en án þess að hann gerði sér alltaf grein fyrir því á því augnabliki. „Það er oft eðli kvikmynda að seytla rólega inn í vitundina. En sem krakki var ég algjörlega heillaður af Bruce Lee og Buster Keaton. Þetta voru risarnir tveir í mínu lífi og það er dáldið skondið að hugsa til þess núna að í raun áttu þeir heilmargt sameiginlegt. Báðir eru með mikla og sterka nærveru á tjaldinu sem þeir nota óspart. Þeir nota einfaldan frásagnarmáta og voru báðir gríðarlega færir líkamlega og það er færni sem hefur alltaf heillað mig. Seinna á ævinni var það umfram allt Taxi Driver eftir Martin Scorsese sem gjörbreytti viðhorfi mínu til kvikmynda. Á þeim tímapunkti vorum við vön að sjá myndir um góðu og vondu kallana og svo gerðist eitthvað á milli þeirra. En í Taxi Driver horfði maður á þennan náunga sem var hreint út sagt algjör fábjáni en maður kunni samt vel við hann. Maður hataði hann og elskaði í sömu andrá. Ég man eftir því að koma út úr bíóinu eftir að hafa séð hana í fyrsta sinn og ég var alveg ringlaður. Það var búið að brjóta niður þennan svart-hvíta vegg – þessa góðu-vondu-kalla hugmynd og á því andartaki áttaði ég mig á því að kvikmyndir geta fengið mann til þess að efast um allt og hugsa hlutina upp á nýtt. Taxi Driver er þannig mynd sem veitir engin svör heldur fær mann til þess að hugsa og þess vegna hefur það reynst mér frábær innblástur að leita í þá mynd aftur og aftur.“ Pusher var svo fyrsta kvikmyndin sem Mads Mikkelsen lék í og það er ekki laust við að þar gæti einmitt áhrifa frá Taxi Driver. „Algjörlega, en Pusher 2 var í raun skyldari Taxi Driver vegna þess að þar erum við að fylgja eftir sögu manns sem er algjör fábjáni en við finnum til með honum engu að síður. Það er persóna sem maður tengist tilfinningalega um leið og mann langar til þess að fokking drepa hann,“ segir Mads og hlær. „En óneitanlega var Pusher sú mynd sem breytti mestu fyrir minn feril og opnaði fyrir mér allar dyr en mér finnst framhaldið mun betri mynd. Hún er í raun mun snjallari og á óneitanlega mjög stóran sess í mínu kvikmyndahjarta. Þannig er það vissulega líka með Jagten, það er falleg mynd sem mér þykir vænt um og eins mynd Susanne Bier, Elsker dig for evigt, og það eru vissulega fleiri slíkar á mínum ferli. En fyrir mig sem leikara þá verð ég að nefna mynd sem ýtti mér út að ystu mörkum. Mynd sem var í raun eiginlega á mörkunum að vera lögleg á sínum tíma vegna þess að við vorum kynslóð sem vorum að vinna í mjög svo heimildarmyndalegum og raunverulegum stíl. Þetta var svarta kómedían De grønne slagtere sem Anders Thomas Jensen leikstýrði. Það var mynd sem jaðraði við að vera ákveðið sjálfsmorð en við gerðum hana samt og þar komumst við upp með að skapa persónur sem voru eiginlega leikhúspersónur. Ég alveg elskaði að komast upp með þetta og mér finnst þetta vera alveg brilljant mynd.Sprungur í brynjunni Leyndardómurinn á bak við kómedíu er að það verður að taka hana mjög alvarlega. Þegar til að mynda persónurnar eru í uppnámi eða að brotna niður yfir einhverju, hversu fáránlegt sem það er, þá verður maður að virða það og vera hreinskilinn. Það er í þeirri einlægni sem allt verður klikkað og fyndið í raun og veru.“ Mads segir að fyrir honum megi í raun rekja þessa einlægni kómedíunnar aftur til snillinga á borð við Buster Keaton. „Hann var snillingur í þessu. Og það sem ég elska mest við myndirnar hans er að hann brosir í raun og veru en örsjaldan. En þegar hann brosir þá opnast himnarnir. Ég gerði mér auðvitað ekki grein fyrir þessu þegar ég var strákur en þetta er það sem heillar. Ég er aðdáandi þessarar færni. Maður á ekki að leika persónuna sem er alltaf glöð eða alltaf sorgmædd heldur þá sem er raunveruleg. Buster Keaton leikur alltaf manneskjuna sem heldur einhverju fyrir sig, einhverju sem aðrir fá ekki að sjá en svo fara að myndast holur og sprungur í brynjunni og þar í gegn fáum við svo að sjá það sem skiptir máli. Þetta er sú leið sem hefur alltaf heillað mig.Mads Mikkelsen segist elska að vinna með Íslendingum.Mynd/Helen SloanElska þessar aðstæður Það var dásamlegt að klára þetta verkefni en það var líka dásamlegt að vinna það. Þú og þínir lesendur þekkið Ísland auðvitað betur en ég, þetta á að gerast á norðurpólnum, og þeir sem þekkja Ísland eitthvað vita að veðrið breytist gjörsamlega á klukkustundar fresti. Það leiddi til þess að við vorum lengi vel að eltast við veðrið og reyna að laga okkur að aðstæðunum. Vorum að stökkva á milli atriða eftir því hvernig veðrið breyttist og svo þegar við vorum tilbúin í að taka atriðið þá var komið eitthvað allt annað veður. Þannig að við vorum svona að reyna að berjast við þessar aðstæður – þetta síbreytilega veður, þangað til að við bara gáfumst upp. Komumst að þeirri niðurstöðu að við þyrftum hreinlega bara að skjóta þessa mynd óháð því hvernig veðrið væri. Við bara látum þetta virka,“ segir Mads og hlær við tilhugsunina. „Þetta reyndist okkur miklu betur. Það var ekki til neins að eltast við þetta. En þetta er falleg mynd. Hjartnæm og sterk saga sem er í raun mjög svo óamerísk þó svo að hún sé amerísk og ég hlakka mikið til að sjá útkomuna.“ Mads hefur á orði að það sé líka talsvert frábrugðið því að vinna á Íslandi og víða annars staðar í heiminum. „Ég elska Ísland. Ég elska fólkið og landið. Ég elska hvernig Íslendingar vinna. Núna er ég búinn að vera þrisvar sinnum á Íslandi og ég verð alltaf jafn heillaður af því hvað fólkið gefur sig allt í það sem við erum að gera. Fólk bara brettir upp ermar og vinnur þau verk sem þarf að vinna með bros á vör. Það var gríðarlega erfitt að vinna að þessari mynd en ég hef aldrei áður séð svona margt fólk vinna af slíkum dugnaði en vera um leið jákvætt og glatt. Þetta er nákvæmlega það sem mynd eins og þessi þarf á að halda því ef þú ert með fimm verkalýðsfélög og átta manns að kvarta undan öllu á hverjum degi þá er ekki hægt að búa til svona myndir. Ég er ekki að gefa skít í verkalýðsfélög með þessu en stundum er það algjörlega dásamlegt að geta bara búið til bíó.“ Mads segir að Arctic hafi verið krefjandi verkefni og að það hafi líka reynt á hann líkamlega enda dagarnir langir við erfiðar aðstæður. „En við skutum hana á tuttugu og tveimur dögum minnir mig og þegar maður veit að maður er að vinna í svona rokk og ról verkefni þá er maður líka meðvitaður um endamarkið. Maður lætur bara vaða, leyfir sér ekki að hugsa um hversu erfitt þetta er og vonandi er maður svo búinn að þessu nokkrum vikum síðar. Kvikmyndir geta verið erfiðar á ólíkan máta. Stundum leikur maður í senu, er svo laus frá tökum í einn eða tvo daga á meðan það er verið að skjóta aðrar persónur og maður fer að hugsa um næstu senu svona í rólegheitunum. En í Arctic var ég að alla daga, hverja einustu mínútu frá morgni til kvölds og það komst ekkert annað að. Ég nýt þess að vera í þessum skriðþunga og hef þá trú að við þær aðstæður geti skapast eitthvað alveg sérstakt. Mér finnst mjög heillandi að vinna í þessari orku og nýt þess til fulls.“Nordicphotos/gettyÞetta er draumurinn Mads Mikkelsen er gríðarlega eftirsóttur leikari en segist þó ekki hafa hugmynd um hvað hann ætlar að taka sér fyrir hendur næst. „Ég veit það ekki. Það er reyndar þannig með okkur sem vinnum við að gera kvikmyndir að við deilum þeirri tilfinningu að loknu verkefni að við fáum aldrei aftur neitt að gera. Það er eitthvað sem breytist aldrei,“ segir Mads og hlær aðeins við tilhugsunina. „En það er líka á sinn hátt skelfilegt að vera fullbókaður næstu tvö árin. Þá er ég alltaf að hugsa: Hvað ef það kæmi nú eitthvað annað sem er algjörlega stórkostlegt? Hvað þá? Þannig að þetta er tvíeggjað sverð. En ég hef lært að sætta mig við þetta að einhverju leyti og er að reyna að vera afslappaður gagnvart þessu vegna þess að ég get engu breytt um þetta. Það koma tilboð og ef mér líkar ekki við þau þá segi ég nei. Ég er kominn á þann stað að ég vel ekki lengur verkefni vegna peninganna heldur vegna þess að það er eitthvað sem mér finnst spennandi og langar til þess að gera. Það er augljóslega lúxus vegna þess að stundum er maður bara búinn með peninginn en núna er ég í þeirri gæfuríku stöðu að geta sagt: Veistu hvað, ég er að taka mér langt frí,“ segir Mads og það leynir sér ekki að hann nýtur þess að vera í góðu fríi. „Þegar ég tek mér frí þá fer ég heim til fjölskyldunnar. Ég er giftur yndislegri konu og við eigum tvo stráka sem eru orðnir 25 og 19 ára. Við verjum miklum tíma saman, erum mikið í sporti og ég hjóla, spila tennis og það er svona mín leið að því að slaka á í lífinu. Ég hef alltaf verið líkamlega vel á mig kominn og ætli að fimleikamaðurinn sé ekki alltaf þarna einhvers staðar. En ég er svo sem orðinn 51 árs gamall og líkaminn jafnar sig ekki með sama hraða og áður. Vandinn er að ég er alltaf að gleyma aldrinum en líkaminn minnir mig svo á hann á kvöldin. Segir mér að þessir fjórir tímar af tennis hafi verið helst til mikið,“ segir Mads og hlær. „Hvað ferilinn varðar þá snýst draumurinn í raun um það sem ég var að gera á Íslandi. Þetta er þar sem þetta byrjaði. Þessi rokk og ról kvikmyndagerð sem mín kynslóð féll fyrir og við létum okkur dreyma um að verða hluti af einn daginn. Ég hef tekið þátt í nokkrum slíkum verkefnum en þau koma ekki til manns á hverjum degi. Langt frá því. Ef ég verð heppinn þá fæ ég að taka þátt í einu eða tveimur slíkum verkefnum til viðbótar. En þetta verkefni á Íslandi kom til mín og þetta er það sem okkur leikarana dreymir um. Að fara inn í verkefnið, gleyma aldrinum og halda að maður sé tvítugur og bara láta vaða. Ég held að þetta sé draumur allra leikara.“Viðtalið birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. maí. Bíó og sjónvarp Íslandsvinir Mest lesið Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Lífið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Lífið Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Áskorun Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn Lífið Frægir fundu ástina 2024 Lífið 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Lífið Landaði hlutverki í íslensku Hallmark-myndinni á hálftíma Bíó og sjónvarp „Ég var alltaf systir bræðranna sem dóu, dóttir bæjarstjórans eða dóttir ráðherrans“ Áskorun Lively í hart: „Þú veist að við getum grafið hvern sem er“ Bíó og sjónvarp Fleiri fréttir Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Sjá meira
Lífið er gott. Ég er í Kaupmannahöfn svona aðeins að slaka á og njóta þess að vera til,“ segir leikarinn Mads Mikkelsen sem nýverið lauk við tökur á kvikmyndinni Arctic sem er leikstýrt af ungum leikstjóra að nafni Joe Penna, framleidd af bandarísku fyrirtækjunum Armory Films og Union Entertainment í samstarfi við íslenska fyrirtækið Pegasus. Það er líka eftirtektarvert að listrænir stjórnendur og starfsfólk myndarinnar var allt íslenskt utan aðstoðarleikstjórans en tökur fóru allar fram á Íslandi. Mads Mikkelsen hefur á síðustu árum öðlast heimsfrægð fyrir leik sinn í kvikmyndum á borð við Bond-myndina Casino Royale, Rogue One Star Wars, dönsku verðlaunamyndina Jagten og fjölmargar fleiri myndir ásamt bæði dönskum og bandarískum sjónvarpsseríum. Þrátt fyrir frægðina stendur hugur Mads Mikkelsen þó einkum til þess sem hann kallar rokk og ról verkefni og Arctic er fyrir honum eitt af þeim verkefnum, kannski einmitt vegna þess hversu krefjandi og erfitt það reyndist.Engin köllun Mads Mikkelsen er því hvíldinni feginn og hann segir að það sé gott að koma á heimaslóð í Kaupmannahöfn þar sem hann er fæddur og uppalinn. Aðspurður um ástæður þess að hann hafi ákveðið að leggja leiklistina fyrir sig þá segir hann það í raun hafa ráðist af röð tilviljana. „Ég var í fimleikum þegar ég var krakki og var beðinn um að taka þátt í söngleik til þess að taka nokkur heljarstökk í bakgrunninum og var látinn dansa smá í leiðinni. Danshöfundurinn spurði mig hvort að ég væri ekki til í að læra að dansa og ég ákvað að slá til sem leiddi til þess svona í stuttu máli að ég var atvinnudansari í níu ár. Það var á þeim vettvangi sem ég fékk áhuga á leiklistinni.“ Úr dansinum lá leiðin í leiklistarskólann í Árósum sem er annar af stóru leiklistarskólunum í Danmörku og Mads segir að árin þar hafi verið góður tími. „Þetta er fín borg en námsmenn njóta kannski sjaldan alveg borganna þar sem þeir læra vegna þess að þeir eiga aldrei pening,“ segir Mads og hlær við minninguna. „En eins og með námið þá hefur ferillinn alltaf verið bara eitthvað sem gerist. Ég fann aldrei fyrir einhvers konar köllun heldur var þetta meira þannig að eitt leiddi af öðru. Þannig var það t.d. að sumarið fyrir síðasta veturinn í skólanum lék ég í minni fyrstu kvikmynd sem var Pusher eftir Nicolas Winding Refn. Pusher var skotin þarna í sumarfríinu og þegar ég svo útskrifaðist vorið eftir þá var einmitt verið að frumsýna þá mynd. Ég var því einn þeirra heppnu sem þurftu ekki að fara af stað og banka upp á í leit að vinnu. Ég fékk strax vinnu í leikhúsi og var að auki boðið að vera með í nokkrum myndum þannig að þetta var eins þægilegt og það getur orðið.“Mynd/Helen SloanDanska byltingin Mads Mikkelsen er í hugum margra andlit dönsku kvikmyndabyltingarinnar sem hann segir að Danir hafi unnið mjög markvisst að því að byggja upp. „Velgengni okkar Dana í kvikmyndagerð byggist hvorki á tilviljun né heppni. Þær fjárfestingar sem þjóðin lagði í kvikmyndagerð á síðustu áratugum hafa reynst gríðarlega mikilvægar. Við megum auðvitað ekki gleyma að þetta hefur verið til staðar mun lengur en þessi uppsveifla í dönskum kvikmyndum. En málið er að þetta hefur verið gert með markvissum hætti, er enn til staðar af fullum krafti og er haldið stöðugu. Fyrir vikið eru danskar kvikmyndir gríðarlega sterkar á alþjóðlegum mörkuðum og þó að það sé munur á milli ára þá eru þetta einfaldlega mjög öflug viðskipti. Auðvitað hefur aðkoma ríkisins mikið að segja um þennan góða árangur en ég held að þetta hafi líka mikið að gera með kynslóðir. Sú kynslóð sem kom út úr leiklistar- og kvikmyndaskólunum á þessum tíma, um miðjan tíunda áratuginn, deildi ákveðinni ástríðu. Allir sem tilheyrðu þessari kynslóð áttu sameiginlega ást á kvikmyndum sem voru frá því á áttunda og snemma á níunda áratugunum. Við horfðum aftur og aftur á þessar myndir og spurðum okkur svo að því af hverju við hefðum aldrei gert neitt í líkingu við þetta. Við vorum í raun föst í einhverju fari. Það þýðir ekki að það hafi ekki verið gerðar góðar myndir í Danmörku eða að það hafi ekki verið nóg til af góðum leikurum. Alls ekki. En vandinn var að það var ekki tekin áhætta í danskri kvikmyndagerð. Þessi kynslóð sem ég er að tala um breytti þessu. Hún tók áhættu. Við sem elskuðum myndir Martins Scorsese leituðumst við að byggja á því sem okkur fannst áhugavert í hans myndum. Þeir sem elskuðu Cassavetes unnu út frá því. Þetta leiddi til ákveðinnar byltingar. Leiddi til þess að við náðum að komast upp úr hjólförunum og undan þeirri stöðnum sem hafði ríkt lengi og það er það sem ég á við með að þetta sé byggt á kynslóð. Við vorum fólk á sama aldri, með sömu orku og sömu hugmyndirnar um kvikmyndir. En það sem er mest um vert er að við vorum ekki að vinna með 72 ára gömlum leikstjóra sem langaði til þess að segja eitthvað um sína æsku. Eitthvað sem hafði ekkert með okkur að gera.“ Mads leggur áherslu á að það sé mikilvægt fyrir þjóð á borð við Dani að eiga sína eigin öflugu kvikmyndagerð. „Þetta er líka mikilvægt fyrir tungumálið, við vitum alveg að danska er ekki að fara að verða alheimstungumálið á morgun, en það er auðveldara að spegla sig í kvikmyndum á móðurmálinu. Alveg eins og það er auðveldara að tengja við það sem gerist í nærumhverfinu fremur en það sem gerist kannski í New York. Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að halda áfram að framleiða kvikmyndir í Danmörku.“Mads Mikkelsen hefur verið viðstaddur ófáa stórviðburðina en hugurinn er þó heima í Kaupmannahöfn hjá fjölskyldunni.Nordicphotos/gettyFrá Buster Keaton til fábjána Mads segir að hvað hann varði persónulega hafi ótrúlega margar kvikmyndir haft áhrif á hann en án þess að hann gerði sér alltaf grein fyrir því á því augnabliki. „Það er oft eðli kvikmynda að seytla rólega inn í vitundina. En sem krakki var ég algjörlega heillaður af Bruce Lee og Buster Keaton. Þetta voru risarnir tveir í mínu lífi og það er dáldið skondið að hugsa til þess núna að í raun áttu þeir heilmargt sameiginlegt. Báðir eru með mikla og sterka nærveru á tjaldinu sem þeir nota óspart. Þeir nota einfaldan frásagnarmáta og voru báðir gríðarlega færir líkamlega og það er færni sem hefur alltaf heillað mig. Seinna á ævinni var það umfram allt Taxi Driver eftir Martin Scorsese sem gjörbreytti viðhorfi mínu til kvikmynda. Á þeim tímapunkti vorum við vön að sjá myndir um góðu og vondu kallana og svo gerðist eitthvað á milli þeirra. En í Taxi Driver horfði maður á þennan náunga sem var hreint út sagt algjör fábjáni en maður kunni samt vel við hann. Maður hataði hann og elskaði í sömu andrá. Ég man eftir því að koma út úr bíóinu eftir að hafa séð hana í fyrsta sinn og ég var alveg ringlaður. Það var búið að brjóta niður þennan svart-hvíta vegg – þessa góðu-vondu-kalla hugmynd og á því andartaki áttaði ég mig á því að kvikmyndir geta fengið mann til þess að efast um allt og hugsa hlutina upp á nýtt. Taxi Driver er þannig mynd sem veitir engin svör heldur fær mann til þess að hugsa og þess vegna hefur það reynst mér frábær innblástur að leita í þá mynd aftur og aftur.“ Pusher var svo fyrsta kvikmyndin sem Mads Mikkelsen lék í og það er ekki laust við að þar gæti einmitt áhrifa frá Taxi Driver. „Algjörlega, en Pusher 2 var í raun skyldari Taxi Driver vegna þess að þar erum við að fylgja eftir sögu manns sem er algjör fábjáni en við finnum til með honum engu að síður. Það er persóna sem maður tengist tilfinningalega um leið og mann langar til þess að fokking drepa hann,“ segir Mads og hlær. „En óneitanlega var Pusher sú mynd sem breytti mestu fyrir minn feril og opnaði fyrir mér allar dyr en mér finnst framhaldið mun betri mynd. Hún er í raun mun snjallari og á óneitanlega mjög stóran sess í mínu kvikmyndahjarta. Þannig er það vissulega líka með Jagten, það er falleg mynd sem mér þykir vænt um og eins mynd Susanne Bier, Elsker dig for evigt, og það eru vissulega fleiri slíkar á mínum ferli. En fyrir mig sem leikara þá verð ég að nefna mynd sem ýtti mér út að ystu mörkum. Mynd sem var í raun eiginlega á mörkunum að vera lögleg á sínum tíma vegna þess að við vorum kynslóð sem vorum að vinna í mjög svo heimildarmyndalegum og raunverulegum stíl. Þetta var svarta kómedían De grønne slagtere sem Anders Thomas Jensen leikstýrði. Það var mynd sem jaðraði við að vera ákveðið sjálfsmorð en við gerðum hana samt og þar komumst við upp með að skapa persónur sem voru eiginlega leikhúspersónur. Ég alveg elskaði að komast upp með þetta og mér finnst þetta vera alveg brilljant mynd.Sprungur í brynjunni Leyndardómurinn á bak við kómedíu er að það verður að taka hana mjög alvarlega. Þegar til að mynda persónurnar eru í uppnámi eða að brotna niður yfir einhverju, hversu fáránlegt sem það er, þá verður maður að virða það og vera hreinskilinn. Það er í þeirri einlægni sem allt verður klikkað og fyndið í raun og veru.“ Mads segir að fyrir honum megi í raun rekja þessa einlægni kómedíunnar aftur til snillinga á borð við Buster Keaton. „Hann var snillingur í þessu. Og það sem ég elska mest við myndirnar hans er að hann brosir í raun og veru en örsjaldan. En þegar hann brosir þá opnast himnarnir. Ég gerði mér auðvitað ekki grein fyrir þessu þegar ég var strákur en þetta er það sem heillar. Ég er aðdáandi þessarar færni. Maður á ekki að leika persónuna sem er alltaf glöð eða alltaf sorgmædd heldur þá sem er raunveruleg. Buster Keaton leikur alltaf manneskjuna sem heldur einhverju fyrir sig, einhverju sem aðrir fá ekki að sjá en svo fara að myndast holur og sprungur í brynjunni og þar í gegn fáum við svo að sjá það sem skiptir máli. Þetta er sú leið sem hefur alltaf heillað mig.Mads Mikkelsen segist elska að vinna með Íslendingum.Mynd/Helen SloanElska þessar aðstæður Það var dásamlegt að klára þetta verkefni en það var líka dásamlegt að vinna það. Þú og þínir lesendur þekkið Ísland auðvitað betur en ég, þetta á að gerast á norðurpólnum, og þeir sem þekkja Ísland eitthvað vita að veðrið breytist gjörsamlega á klukkustundar fresti. Það leiddi til þess að við vorum lengi vel að eltast við veðrið og reyna að laga okkur að aðstæðunum. Vorum að stökkva á milli atriða eftir því hvernig veðrið breyttist og svo þegar við vorum tilbúin í að taka atriðið þá var komið eitthvað allt annað veður. Þannig að við vorum svona að reyna að berjast við þessar aðstæður – þetta síbreytilega veður, þangað til að við bara gáfumst upp. Komumst að þeirri niðurstöðu að við þyrftum hreinlega bara að skjóta þessa mynd óháð því hvernig veðrið væri. Við bara látum þetta virka,“ segir Mads og hlær við tilhugsunina. „Þetta reyndist okkur miklu betur. Það var ekki til neins að eltast við þetta. En þetta er falleg mynd. Hjartnæm og sterk saga sem er í raun mjög svo óamerísk þó svo að hún sé amerísk og ég hlakka mikið til að sjá útkomuna.“ Mads hefur á orði að það sé líka talsvert frábrugðið því að vinna á Íslandi og víða annars staðar í heiminum. „Ég elska Ísland. Ég elska fólkið og landið. Ég elska hvernig Íslendingar vinna. Núna er ég búinn að vera þrisvar sinnum á Íslandi og ég verð alltaf jafn heillaður af því hvað fólkið gefur sig allt í það sem við erum að gera. Fólk bara brettir upp ermar og vinnur þau verk sem þarf að vinna með bros á vör. Það var gríðarlega erfitt að vinna að þessari mynd en ég hef aldrei áður séð svona margt fólk vinna af slíkum dugnaði en vera um leið jákvætt og glatt. Þetta er nákvæmlega það sem mynd eins og þessi þarf á að halda því ef þú ert með fimm verkalýðsfélög og átta manns að kvarta undan öllu á hverjum degi þá er ekki hægt að búa til svona myndir. Ég er ekki að gefa skít í verkalýðsfélög með þessu en stundum er það algjörlega dásamlegt að geta bara búið til bíó.“ Mads segir að Arctic hafi verið krefjandi verkefni og að það hafi líka reynt á hann líkamlega enda dagarnir langir við erfiðar aðstæður. „En við skutum hana á tuttugu og tveimur dögum minnir mig og þegar maður veit að maður er að vinna í svona rokk og ról verkefni þá er maður líka meðvitaður um endamarkið. Maður lætur bara vaða, leyfir sér ekki að hugsa um hversu erfitt þetta er og vonandi er maður svo búinn að þessu nokkrum vikum síðar. Kvikmyndir geta verið erfiðar á ólíkan máta. Stundum leikur maður í senu, er svo laus frá tökum í einn eða tvo daga á meðan það er verið að skjóta aðrar persónur og maður fer að hugsa um næstu senu svona í rólegheitunum. En í Arctic var ég að alla daga, hverja einustu mínútu frá morgni til kvölds og það komst ekkert annað að. Ég nýt þess að vera í þessum skriðþunga og hef þá trú að við þær aðstæður geti skapast eitthvað alveg sérstakt. Mér finnst mjög heillandi að vinna í þessari orku og nýt þess til fulls.“Nordicphotos/gettyÞetta er draumurinn Mads Mikkelsen er gríðarlega eftirsóttur leikari en segist þó ekki hafa hugmynd um hvað hann ætlar að taka sér fyrir hendur næst. „Ég veit það ekki. Það er reyndar þannig með okkur sem vinnum við að gera kvikmyndir að við deilum þeirri tilfinningu að loknu verkefni að við fáum aldrei aftur neitt að gera. Það er eitthvað sem breytist aldrei,“ segir Mads og hlær aðeins við tilhugsunina. „En það er líka á sinn hátt skelfilegt að vera fullbókaður næstu tvö árin. Þá er ég alltaf að hugsa: Hvað ef það kæmi nú eitthvað annað sem er algjörlega stórkostlegt? Hvað þá? Þannig að þetta er tvíeggjað sverð. En ég hef lært að sætta mig við þetta að einhverju leyti og er að reyna að vera afslappaður gagnvart þessu vegna þess að ég get engu breytt um þetta. Það koma tilboð og ef mér líkar ekki við þau þá segi ég nei. Ég er kominn á þann stað að ég vel ekki lengur verkefni vegna peninganna heldur vegna þess að það er eitthvað sem mér finnst spennandi og langar til þess að gera. Það er augljóslega lúxus vegna þess að stundum er maður bara búinn með peninginn en núna er ég í þeirri gæfuríku stöðu að geta sagt: Veistu hvað, ég er að taka mér langt frí,“ segir Mads og það leynir sér ekki að hann nýtur þess að vera í góðu fríi. „Þegar ég tek mér frí þá fer ég heim til fjölskyldunnar. Ég er giftur yndislegri konu og við eigum tvo stráka sem eru orðnir 25 og 19 ára. Við verjum miklum tíma saman, erum mikið í sporti og ég hjóla, spila tennis og það er svona mín leið að því að slaka á í lífinu. Ég hef alltaf verið líkamlega vel á mig kominn og ætli að fimleikamaðurinn sé ekki alltaf þarna einhvers staðar. En ég er svo sem orðinn 51 árs gamall og líkaminn jafnar sig ekki með sama hraða og áður. Vandinn er að ég er alltaf að gleyma aldrinum en líkaminn minnir mig svo á hann á kvöldin. Segir mér að þessir fjórir tímar af tennis hafi verið helst til mikið,“ segir Mads og hlær. „Hvað ferilinn varðar þá snýst draumurinn í raun um það sem ég var að gera á Íslandi. Þetta er þar sem þetta byrjaði. Þessi rokk og ról kvikmyndagerð sem mín kynslóð féll fyrir og við létum okkur dreyma um að verða hluti af einn daginn. Ég hef tekið þátt í nokkrum slíkum verkefnum en þau koma ekki til manns á hverjum degi. Langt frá því. Ef ég verð heppinn þá fæ ég að taka þátt í einu eða tveimur slíkum verkefnum til viðbótar. En þetta verkefni á Íslandi kom til mín og þetta er það sem okkur leikarana dreymir um. Að fara inn í verkefnið, gleyma aldrinum og halda að maður sé tvítugur og bara láta vaða. Ég held að þetta sé draumur allra leikara.“Viðtalið birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. maí.
Bíó og sjónvarp Íslandsvinir Mest lesið Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Lífið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Lífið Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Áskorun Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn Lífið Frægir fundu ástina 2024 Lífið 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Lífið Landaði hlutverki í íslensku Hallmark-myndinni á hálftíma Bíó og sjónvarp „Ég var alltaf systir bræðranna sem dóu, dóttir bæjarstjórans eða dóttir ráðherrans“ Áskorun Lively í hart: „Þú veist að við getum grafið hvern sem er“ Bíó og sjónvarp Fleiri fréttir Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Sjá meira