Enski boltinn

Leiðinlegur stöðugleiki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arsenal endaði í 2. sæti á síðasta tímabili en liðið hafði ekki endað ofar í ensku úrvalsdeildinni frá 2005. Skytturnar voru samt heilum 10 stigum á eftir Leicester og skutust upp í 2. sætið í lokaumferðinni eftir skelfilegan endasprett erkióvinanna í Tottenham.

Arsenal hefur ekki unnið Englandsmeistaratitilinn síðan 2004 og biðin eftir þeim næsta hefur tekið á stuðningsmenn Arsenal sem eru margir hverjir orðnir langþreyttir á ástandinu.

Það er margt verra en að vera alltaf í efstu fjórum sætum ensku úrvalsdeildarinnar, fastagestir í Meistaradeild Evrópu og spila yfirleitt góðan fótbolta. En stuðningsmenn Ars­enal vilja meira og spjótin hafa beinst að Arsene Wenger, sem hefur verið við stjórnvölinn hjá félaginu frá 1996.

Granit Xhaka er eini leikmaðurinn sem hefur bæst við leikmannahóp Arsenal í sumar en það er hætt við að það sé ekki nóg. Wenger er í vandræðum vegna meiðsla miðvarða liðsins og þá hefur honum ekki tekist að landa framherja.

Á meðan hafa helstu mótherjarnir verið duglegir á félagaskiptamarkaðinum og eru sterkari en á síðasta tímabili.

Það er mikið af góðum fótboltamönnum í Arsenal og nokkrir þeirra (Granit Xhaka, Aaron Ramsey og Mesut Özil) spiluðu vel á EM.

Það vantar ekki mikið upp á til að Arsenal geti barist af alvöru um þann stóra en það er spurning hvort tregða Weng­ers og félagsins til að eyða háum fjárhæðum sé að halda aftur af Skyttunum.

Stórleikur Arsenal og Liverpool verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 og Stöð 2 Sport 2 HD í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×