Grímur Hergeirsson mun ekki þjálfa Íslandsmeistara Selfoss næsta vetur en hann hefur ákveðið að stíga til hliðar í lok tímabils.
Grímur tilkynnti stjórn handknattleiksdeildar um ákvörðun sína fyrir jól og staðfesti það svo við íþróttadeild í dag. Hann tók frekar óvænt við liðinu fyrir tímabilið af Patreki Jóhannessyni.
„Það stóð aldrei til að ég yrði lengi í þessu starfi og strákarnir hafa örugglega gott af því að hvíla sig aðeins á mér enda búinn að vera þarna lengi,“ sagði Grímur léttur en hann er staddur í rjómablíðu á Akureyri þar sem hans menn spila við KA klukkan 17.00 í dag.
Grímur var aðstoðarþjálfari Selfoss í fyrra og hefur lengi verið viðloðandi boltann á Selfossi. Hann segir að nú sé kominn tími til að gefa fjölskyldunni meiri tíma.
Selfyssingar eru því í þjálfaraleit og sömu sögu er að segja af Haukum sem hafa ekki enn fundið arftaka Gunnars Magnússonar sem hættir einnig í vor.
Handbolti