Innlent

Landgangar teknir úr notkun ellefu sinnum það sem af er vetri

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Farþegar á leið um borð í flugvél á Keflavíkurflugvelli.
Farþegar á leið um borð í flugvél á Keflavíkurflugvelli. Mynd/Arnar Halldórsson.

Frá því í október hefur það komið ellefu sinni fyrir að taka hefur landganga úr notkun á Keflavíkurflugvelli vegna veðurs, samanborið við sautján skipti síðasta vetur.

Millilandaflug um Keflavík hefur legið niðri í dag vegna veðurs en í dag var til að mynda greint frá því að Icelandair hafi aflýst fimmtíu brottförum í dag.

Flugfélagið hefur aflýst 200 brottförum frá því í október, þar af eru 130 í janúarmánuði, en veður hafa verið afar válynd í vetur.

„Það hefur gerst núna ellefu sinnum síðan í byrjun október að það hefur þurft að taka landganga úr notkun og veður hefur verið með þannig móti að flugfélög hafa tekið ákvörðun um að aflýsa eða hraða flugferðum,“ sagði Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia í kvöldfréttum Stöðvar 2, staddur í flugturninum á Reykjavíkurflugvelli.

Ef vindhraði fer yfir 25 metra á sekúndu á Keflavíkurflugvelli er ekki hægt að notast við landganga.  Talsverðar líkur eru á því að lokanir vegna veðurs verði tíðari þennan vetur en þann síðasta.

„Ef við förum í samanburð við veturinn 2018-2019 þá voru það sautján skipti yfir allan veturinn þar sem landgangar voru teknir í notkun yfir skemmri eða lengri tíma, mest tvisvar í rúmlega níu klukkustundir,“ sagði Guðjón.

Þá sé veðurhamurinn þennan veturinn öðruvísi en síðasta vetur.

„Munurinn sem við erum að sjá núna er að þetta veður sem er að valda þessu, vindhraði og óveður, það er að vara í lengri tíma í einu en til dæmis bara síðasta vetur..“


Tengdar fréttir

Icelandair hefur aflýst fimmtíu brottförum í dag

Raskanir á flugi Icelandair í gær og í dag hafa haft áhrif á um það bil 3.000 farþega. Flugfélagið hefur aflýst 200 brottförum frá því í október, þar af eru 130 í janúarmánuði og fimmtíu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×