Fótbolti

Íhugar að yfirgefa félagið sem borgar honum rúm 600 þúsund pund í vikulaun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tevez hefur ekki beint unnið fyrir laununum sínum síðan hann gekk í raðir Shanghai Shenhua.
Tevez hefur ekki beint unnið fyrir laununum sínum síðan hann gekk í raðir Shanghai Shenhua. vísir/epa
Argentínski framherjinn Carlos Tevez veltir því nú fyrir sér hvort hann eigi að yfirgefa Shanghai Shenhua þegar tímabilið í kínversku ofurdeildinni klárast.

Tevez gekk í raðir Shanghai frá Boca Juniors í desember síðastliðnum. Argentínumaðurinn fær svimandi háar upphæðir fyrir að spila fyrir Shanghai, eða 615.000 pund á viku. Tevez er hæst launaðasti fótboltamaður í heimi.

Þótt Tevez raki inn peningum hefur hann litlu skilað inni á vellinum. Hann hefur aðeins skorað eitt mark í sex leikjum fyrir Shanghai sem er bara fjórum stigum frá fallsæti í kínversku ofurdeildinni.

„Í hreinskilni sagt veit ég ekki hvað ég geri þegar tímabilið klárast,“ sagði hinn 33 ára gamli Tevez.

Eftir að hafa orðið tvöfaldur meistari á Ítalíu með Juventus tímabilið 2014-15 fór Tevez til uppeldisfélagsins Boca Juniors. Svo gæti farið að hann gengi aftur til liðs við argentínska félagið ef hann ákveður að yfirgefa Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×