Innlent

Primera Air dæmt til að greiða farþegum 400 evrur vegna seinkunar

Bjarki Ármannsson skrifar
Flugfélagið Primera Air þarf að greiða tveimur farþegum flugferðar frá Tenerife til Keflavíkur í ágúst síðastliðnum, sem seinkaðist verulega, 400 evrur hvorum samkvæmt úrskurði Samgöngustofu. Allar líkur eru á að fleiri farþegum verði dæmdar bætur.

Ferð sem átti að taka fimm klukkustundir tók rúman sólarhring

Flugferðin sem um ræðir var farin þann 26. ágúst síðastliðinn og vakti þónokkra athygli í fjölmiðlum. Ferðalagið frá Tenerife til Keflavíkur, sem alla jafna tekur fimm klukkustundir, tók alls rúman sólarhring. Vélinni seinkaði frá Tenerife og millilenti svo á Shannon-flugvelli á Írlandi þar sem farþegar þurftu að dvelja um nóttina.

Farþegarnir 150 sem voru í vélinni fengu tölvupóst í október frá Primera Air þar sem flugfélagið sagðist ekki telja sig þurfa að greiða bætur vegna seinkunarinnar þar sem hún hafi verið vegna ófyrirséðra veðurskilyrða og þannig utan valdsviðs félagsins.

Samgöngustofa féllst ekki á það og telur að greiða eigi farþegunum 400 evrur samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og –ráðsins um skaðabætur og aðstoð til flugfarþega.

Sjá einnig: „Fólk talar ekki mjög fallega um Primera Air þessa stundina“

Úrskurðurinn er sá eini sem birtur hefur verið á netinu en samkvæmt heimildum Vísis hafa fleiri farþegar sem kvörtuðu til Samgöngustofu fengið svar um að Primera Air beri að greiða þeim sömu bætur. Þá eru fleiri sem hyggjast senda Samgöngustofu erindi vegna þessa úrskurðar.

Ekki sýnt fram á að félagið hafi gert allar nauðsynlegar ráðstafanir

Í bréfi Primera Air til farþega segir að óhagstætt veðurfar umræddan dag hafi gert það að verkum að breyta þurfti vanalegri flugleið og millilenda á Írlandi. Farþegunum var tilkynnt við brottför frá Spáni að þar tæki um tuttugu mínútur að taka eldsneyti. 

Við tók tveggja tíma bið á Shannon-flugvelli þar sem í ljós kom að áhöfn vélarinnar hafði unnið of lengi og mátti ekki halda áfram án lágmarkshvíldar. Sú ákvörðun var því tekin að koma farþegunum fyrir á hóteli um nóttina á kostnað félagsins.

Í úrskurði Samgöngustofu segir að seinkun á heimkomu flugsins geti ekki fallið undir óviðráðanlegar aðstæður þar sem Primera Air hafi ekki sýnt fram á að félagið hafi viðhaft allar nauðsynlegar ráðstafanir þannig að vélin gæti lent í Keflavík áður en leyfilegum vinnutíma áhafnar lauk.

Tvö atvik á ábyrgð félagins hafi orðið til þess að áhöfnin rann út á tíma, annars vegar fimmtíu mínútna töf á Tenerife þar sem endurskipuleggja þurfti heimflugið og hins vegar óútskýrð töf á Shannon frá því að lent var og dæling eldsneytis  hófst. 

Sem fyrr segir voru farþegar um borð 150 og líklegt verður að teljast að þessi úrskurður Samgöngustofu sé fordæmisgefandi fyrir þá alla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×