Innlent

Engin ný smit á norðanverðum Vestfjörðum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bolungarvík.
Bolungarvík. Vísir

Engin ný smit greindust á norðanverðum Vestfjörðum í gær en beðið er eftir niðurstöðum úr sýnum sem tekin voru í gær. Þriðjungur þeirra sem greindir hafa verið með Covid-19 sjúkdóminn á svæðinu hafa náð bata.

Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook-síði lögreglunnar á Vestfjörðum þar sem fram kemur að alls hafi 96 greinst í umdæmi lögreglunnar frá því kórónuveirufaraldurinn gerði vart við sig hér á landi, þó enginn í gær.

Ekki liggi fyrir hversu mörg sýni hafi verið rannsökuð á Vestfjörðum, auk þess sem að getið er að ekki liggi fyrir niðurstöður rannsókna á sýnum sem tekin voru í gær. Þeirra sé að vænta á morgun.

Ellefu einstaklingara hafa náð bata á síðustu dögum og eru virk smit nú 63 á norðanverðum Vestfjörðum. Tveir af þeim tíu sem látist hafa af völdum Covid-19 sjúkdómsins bjuggu á Bolungarvík, þar sem alls 54 hafa greinst með smit.

Lögreglan minnir enn á fyrirmælin um takmörkun fjölda einstaklinga í hóp, en hann miðast við 5 manns, nema ef um er að ræða fjölskyldu sem býr á sama heimili. Þetta á við um norðanverða Vestfirði, Bolungarvík, Ísafjarðarbæ og Súðavíkurhrepp. Þessi fyrirmæli ganga lengra en annars staðar á landinu og gilda til og með 26. apríl næstkomandi.

„Þessum takmörkunum mun þó verða aflétt í Dýrafirði, Önundarfirði, Súgandafirði og Súðavíkurhreppi frá og með 27. apríl nk. Við á Ísafirði, Hnífsdal og Bolungarvík þurfum að halda aðeins lengur út þar til takmarkinu er náð. Það getum við,“ segir í stöðuuppfærslu lögreglunnar.

Covid-19 - Engin ný smit greind í gær. Í gær, 20. apríl, voru engin ný smit greind á Vestfjörðum. Ekki liggja fyrir...

Posted by Lögreglan á Vestfjörðum on Þriðjudagur, 21. apríl 2020



Fleiri fréttir

Sjá meira


×