Handbolti

Getur ekki skotið á markið

Snorri Steinn Guðjónsson er meiddur á öxl.
Snorri Steinn Guðjónsson er meiddur á öxl. MYND/pjetur

Það berast ekki allt of góðar fréttir af Strákunum okkar í handboltalandsliðinu þessa daganna. Guðjón Valur fór í aðgerð á öxl í gær og Snorri Steinn Guðjónsson er einnig að glíma við axlarmeiðsl, sem þýða að hann getur ekkert skotið á markið.

„Ég er ekki búinn að láta athuga þetta hjá lækni og það er bara verið að meðhöndla þetta hjá sjúkraþjálfaranum. Þeir halda að ég hafi tognað aftan í öxlinni og ég get voða lítið beitt mér í skotunum, sem er ekkert rosalega spennandi þegar maður er að spila handbolta. Þetta er ekkert sem ég hef áhyggjur af eins og er. Nú er samt vika liðin síðan ég meiddi mig og ég hef ekki tekið miklum framförum. Ég spilaði reyndar leik í millitíðinni og versnaði töluvert eftir hann," segir Snorri.

Snorri Steinn gekk til liðs við danska liðið GOG Svendborg í sumar frá þýska liðinu Minden og þar hafði Meistaradeildin mikið aðdráttarafl. Meiðslin hafa hins vegar sett fyrsta leik Snorra Steins í Meistaradeildinni í óvissu. GOG er komið til Spánar þar sem liðið mætir stórliði Portland San Antonio í kvöld.

„Ég hef aldrei spilað áður í Meistaradeildinni og stór partur af minni ákvörðun að fara í GOG var að fá tækifæri til þess að spila í henni. Ég reyni að pína mig í þessum leik en það er erfitt að spila í gegnum þessi meiðsli og líka spurning um hversu mikið maður hjálpar liðinu ef maður getur ekki skotið á markið. Ég ætla að prófa þetta, hita upp og svo verður bara að koma í ljós hvað ég get beitt mér mikið," segir Snorri Steinn.

Snorri Steinn þarf að bíða eftir nánari skoðun til að fá fullvissu um hvernig framhaldið verður.

„Ég held að mín meiðsli séu ekki af sama toga og þau hjá Gaua, allavega ætla ég að vona það. Það er alltaf slæmt að missa menn í meiðsli og það er aldrei skemmtilegt að þurfa að vera lengi frá. Ég píndi mig í síðasta leik en skaut sama sem ekkert á markið. Vonandi getum við farið betur yfir þetta þegar ég kem til baka frá Spáni. Þá er heil vika í næsta leik og hægt að skoða þetta betur," segir Snorri, sem er bjartsýnn fyrir tímabilið.

„Mér líst vel á tímabilið hjá okkur. Við spiluðum fínan bolta í æfingaleikjunum en svo byrjar tímabilið og þá hefur komið í ljós að hin liðin eru aðeins sjóaðri en við og búin að spila lengur saman. Það er alltaf þannig að menn spila illa einhvern tímann á tímabilinu. Við náðum að vinna fyrsta leikinn um helgina og með því var þungu fargi af mönnum létt og við vonandi komnir aðeins í gang. Við eigum nú leikinn á móti Portland og svo deildarleik sem við eigum að vinna sem ætti að geta komið okkur á skrið," sagði Snorri að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×