Fótbolti

Laurent Blanc: Lyon getur þakkað markverði sínum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Michel Bastros og Kim Kallström. leikmenn Lyon, fagna sæti í undanúrslitum.
Michel Bastros og Kim Kallström. leikmenn Lyon, fagna sæti í undanúrslitum.

Laurent Blanc, þjálfari Bordeaux, er stoltur af sínu liði þrátt fyrir að það hafi dottið úr leik gegn Lyon í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Bordeaux kom öllum á óvart með því að komast svona langt í keppninni og var nálægt því að slá út Lyon. Bordeaux vann heimaleikinn 1-0 eftir að hafa tapað 3-1 á útivelli.

„Reynsluleysi gerði það að verkum að við gerðum tvö dýrkeypt varnarmistök sem færðu þeim mörk í fyrri leiknum. Hefði munurinn bara verið eitt mark eftir hann hefðum við komist áfram," sagði Blanc.

„Við höfðum trú á því fram á síðustu sekúndu að við gætum farið áfram. Markvörður Lyon (Hugo Lloris) var magnaður í þessum seinni leik og sýndi allar sínar bestu hliðar. Þeir geta þakkað honum fyrir að komast áfram," sagði Blanc en Lloris sýndi nokkrum sinnum snilldartilþrif í einvíginu.

„Ég er mjög stoltur af mínum leikmönnum. Þeir komust lengra í keppninni en ég gerði vonir um. Ég vil þó nota tækifærið og óska Lyon til hamingju og vona að liðið njóti velgengni það sem eftir lifir keppninnar."

Lyon mætir FC Bayern í undanúrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×