Innlent

Lög­­reglu­bíll í for­­gangs­akstri lenti í á­­rekstri á rauðu ljósi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi árekstursins í Kópavogi í morgun.
Frá vettvangi árekstursins í Kópavogi í morgun. SFM

Árekstur lögreglubíls í forgangsakstri og fólksbíls varð við Engihjalla í Kópavogi um áttaleytið í morgun. Engin slys urðu á fólki en nokkrar umferðartafir urðu þó vegna óhappsins.

Gunnar Hilmarsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni í Kópavogi segir í samtali við Vísi að þrír lögreglumenn hafi verið í bílnum sem kallaður var út vegna tilkynningar um meðvitundarlausan mann. Um var að ræða F2-útkall og lögreglubíllinn þannig á næstmesta forgangi.

Þegar bílnum var ekið yfir gatnamót við Engihjalla á rauðu ljósi lenti hann á fólksbíl. Ökumaðurinn var einn í bílnum. Gunnar segir að lögreglubílnum hafi ekki verið ekið mjög hratt og enginn hafi slasast við áreksturinn. Þá hafi tjón á bílunum virst minniháttar.

Samkvæmt upplýsingum frá sjónarvotti var áreksturinn nokkuð harður og töluverður hvellur heyrðist þegar bílarnir skullu saman.

Töluverðar umferðartafir urðu vegna árekstursins, sem varð enda á háannatíma í morgun. Þá var annar lögreglubíll sendur í upphaflega útkallið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×