Körfubolti

Fimmtíu stiga sigur Spánverja | Nígeríumenn eiga möguleika

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pau Gasol og félagar rúlluðu yfir Litháa.
Pau Gasol og félagar rúlluðu yfir Litháa. vísir/getty
Spánverjar slátruðu Litháum, 109-59, í körfuboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í Ríó í gær.

Ótrúlegur sigur hjá Spánverjum sem töpuðu fyrstu tveimur leikjum sínum á Ólympíuleikunum. Spánn og Litháen mættust einnig í úrslitum EM í fyrra þar sem Spánverjar höfðu betur.

Spánn er núna með sex stig í 3. sæti B-riðils fyrir lokaumferðina en Litháen er í 2. sæti með sjö stig og komið áfram.

Pau Gasol skoraði 23 stig fyrir Spánverja, tók fimm fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Nikola Mirotic kom næstur með 17 stig en hann nýtti öll sjö skot sín inni í teig. Alls skoruðu sex leikmenn Spánar 10 stig eða fleiri.

Mindaugas Kuzminkas var stigahæstur í liði Litháa með 17 stig. Aðalstjarna liðsins, Jonas Valanciunas tók 10 fráköst en skoraði ekki stig.

Þá gerðu Nígeríumenn sér lítið fyrir og lögðu Króata að velli, 90-76, í sama riðli.

Nígería á því enn möguleika á að komast áfram í 8-liða úrslit en liðið mætir Brasilíu í lokaumferð riðlakeppninnar.

Michael Umeh skoraði 19 stig fyrir Nígeríu í leiknum í gær og Josh Akognon bætti 18 stigum við. Þá var fyrirliðin Ike Diogu öflugur en hann skoraði 10 stig og tók 12 fráköst.

Hjá Króötum var Bojan Bogdanovic langstigahæstur með 28 stig.

Lokaumferðin í A-riðli fer fram í dag. Allir þrír leikirnir verða sýndir í beinni útsendingu á Sportstöðvunum en dagskrána má sjá hér að neðan.

Leikir dagsins:

17:15 Bandaríkin-Frakkland - Stöð 2 Sport 2 HD

22:00 Ástralía-Venesúela - Stöð 2 Sport HD

01:30 Serbía-Kína - Stöð 2 Sport HD




Fleiri fréttir

Sjá meira


×